Sjúklingur á hjartadeild Landspítalans gerði sér lítið fyrir og safnaði fyrir nýjum hægindastólum á tvær deildir Landspítala á sólarhring á meðan hann lá, og liggur raunar enn, að jafna sig eftir stóra hjartaaðgerð þar sem skipt var um hjartaloku í honum.
Sjúklingurinn heitir Hafsteinn Hafsteinsson og var hann í sinni annarri hjartaaðgerð en sett var í hann lífræn hjartaloka árið 2013.
Þegar hann sá sama hægindastólinn og hann festist í á sínum tíma ákvað hann að grípa til sinna ráða. Biðlaði hann til vina sinna í gegnum Facebook um að veita fé í söfnun fyrir þremur hægindastólum sem áætlað var að myndu kosta um 900 þúsund krónur.
Niðurstaðan var gott betri en svo og úr varð að söfnunin dugði fyrir fjórum stólum. Einungis tók það Hafstein og vini hans um sólarhring að safna fyrir þeim.
„Málið er að ég fór í opna hjartaaðgerð 2013 og svo aftur á fimmtudaginn síðasta.
Svo þegar ég kom af gjörgæslu niður á deild 12 G til að jafna mig fór ég í framhaldinu að þramma um gangana. Ég endaði inni á setustofu þar sem ég sá erkióvin minn síðan úr síðustu aðgerð. Það var bölvaður bilaður Lazyboy-stóll sem ég lá fastur í í um 45 mínútur eina nóttina árið 2013 áður en ég náði sambandi við einhvern,“ segir Hafsteinn.
Bætir hann því við að það geti reynst þrautin þyngri að beita sér þegar maður er nýkominn úr stórri aðgerð þar sem bringubeinið er m.a. brotið upp.
Fyrir vikið ákvað að hann að grípa til sinna ráða og hefja söfnunina.
„Ég hugsaði; andskotinn ég hlýt að geta nýtt tengslanet mitt og fengið nýja stóla hingað inn því starfsfólkið á ekki að þurfa að hífa upp farlama karlmenn út af biluðum húsbúnaði. Nóg er álagið fyrir,“ segir Hafsteinn.
Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í framtak Hafsteins og í dag, um sólarhring eftir að söfnunin hófst, var ekki einungis búið að safna fyrir stólunum heldur voru stólar, fjórir talsins, komnir inn á deildir spítalans.
„Þannig er að í gærmorgun henti ég í status og taggaði vel valda einstaklinga, hringdi í Valda Gríms hjá Vogue og hann gerði mér gott tilboð. Með samstilltu átaki voru svo komnir glænýir stólar inn á deild 12-G og 14- EG í dag,“ segir Hafsteinn.
Hann bætir því við að stólarnir hafi ekki mátt koma mikið seinna þar sem Ólympíuleikarnir séu í þann mund að hefjast. Sjúklingar geti því notið þeirra án þess að eiga það á hættu að festast líkt og Hafsteinn forðum.