Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir bagalegt ef rétt reynist að veikleikar í skráningu á búsetu fólks hér á landi leiði til aukins kostnaðar fyrir íslenskt samfélag.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is í kjölfar umfjöllunar þar sem greint var frá því að rúmlega 11 þúsund erlendir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili hér á landi ávinni sér áfram lífeyrisréttindi úr íslenska almannatryggingakerfinu þrátt fyrir að hafa yfirgefið landið.
Er það mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að mikilvægt sé að yfirfara fyrirkomulag við skráningu búsetu og tengsl hennar við réttindi fólks sem myndast hér á landi í því sambandi, að því er fram kemur í svarinu.
„Mikilvægt er allra hluta vegna að lögheimilisskráning á hverjum tíma gefi raunsanna mynd af búsetu fólks í landinu. Ráðuneytið mun eiga frumkvæði að því að yfirfara þetta mál með hlutaðeigandi ráðuneytum.“