Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, á síður von á stýrivaxtalækkun í ágúst. Hún segir hækkun verðbólgu meiri en spár bankans hafi gert ráð fyrir og alvarlegt að sjá matarkörfuna hafa hækkað um 1%.
Hagstofa Íslands greindi frá því í morgun að tólf mánaða verðbólga hefði aukist um hálft prósentustig og væri nú 6,3%, en í síðasta mánuði mældist hún 5,8%. Hagfræðideild Landsbankans hafði aftur á móti spáð því að verðbólga færi upp í 5,9% í júlí.
„Munurinn á okkar spá og endanlegri tölu liggur einna helst í því að útsölur voru aðeins verri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Una og útskýrir árstíðarbundna lækkun í júlí vegna útsala á fötum, skóm og öðru slíku.
Segir hún þetta geta orsakast af því að útsölurnar hafi byrjað fyrr í ár og að lækkunarinnar hafi farið að gæta í byrjun júní. „En þó við við tækjum þessa tvö mánuði saman þá eru þetta samt frekar lélegar útsölur, ef við miðum við árið á undan og árin fyrir heimsfaraldur,“ bætir hún við.
Hún segir aftur á móti alvarlegra að matarkarfan hækki milli mánaða. Það bendi til þess að verðbólguþrýstingur sé enn undirliggjandi í hagkerfinu.
„Við sáum matarkörfuna vera að hækka talsvert mikið. 1% milli mánaða sem er mun meira heldur en í júlí í fyrra.“
Það er þó ekki einungis hægt að kenna matarkörfunni og lélegum útsölum um hækkandi verðbólgu því Una segir húsnæði, eins og svo oft áður, aðal drifkraftinn í verðbólgunni.
„Það skýrir að mestu hækkunina úr 5,8% í 6,3%, en við sjáum merki þess að það sé talsverð spenna á húsnæðismarkaði.“
Hvaða afleiðingar hefur þetta?
„Þetta gerir það að verkum að við teljum mjög litlar líkur á vaxtalækkun í ágúst. Þetta gerir verðbólguhorfur almennt verri og það getur seinkað þessu vaxtarlækkunarferli sem margir hafa verið að bíða eftir, með þeim afleiðingum að vextir haldast hærri enn þá lengur,“ segir hún en bætir við:
„Á móti kemur að vonandi sjáum við verðbólguna hjaðna eitthvað.“
Miðað við stöðuna segir Una litlar líkur á að Seðlabankinn telji tímabært að lækka stýrivexti fyrr en í fyrsta lagi í nóvember.
„Því við sjáum litlar breytingar fram á við og miðað okkar spá þá verður ennþá 5,6% verðbólga í október. Bara rétt undir 6% sem er svipað og hún hefur verið,“ segir Una og bætir við:
„Mögulega ef það birtir til seinna á árinu þá gætum við séð lækkun í nóvember, en annars er það ekki fyrr en á næsta ári.“
Spurð hvað þurfi að breytast til þess að vextir lækki svarar hún því til að fyrst þurfi að sjást merki þess að verðbólguvæntingar séu að fara niður. Það þurfi að hægja á hagkerfinu og hægja á neyslu.
„Við sjáum að kortavelta og einkaneysla virðist halda sér, hún hefur ekkert lækkað neitt svakalega. Í rauninni hefur hún sýnt sig til þess að vera nokkuð seig þrátt fyrir þessa háu vexti,“ segir hún og heldur áfram:
„Þegar vextir eru háir þá er meiri hvati til þess að spara og minni hvati til að eyða peningum. Þar með ætti þrýstingur að minnka og hann hefur vissulega gert það, en það er bara ekki nóg. Þetta tekur tíma.“