Túlkar að verið sé að gera gys að þjóðinni

Helga Gunnlaugssyni afbrotafræðingi finnst nafnbreytingar Quang Lé og Kourani vera …
Helga Gunnlaugssyni afbrotafræðingi finnst nafnbreytingar Quang Lé og Kourani vera ýmist gerðar í blekkingartilgangi eða til þess að draga dár að okkur. Samsett mynd

„Þetta minnir að sumu leyti á kennitöluflakk í viðskiptaheiminum. Þegar menn lenda í ógöngum þar hafa þeir stundum, undir ákveðnum kringumstæðum og forsendum, getað skipt um kennitölu og byrjað upp á nýtt bara.“

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur í samtali við mbl.is, spurður hvort heilbrigt sé fyrir samfélagið að menn geti framið glæp hérlendis og skipt um nafn í kjölfarið.

Ekki góð skilaboð út í samfélagið

„Við erum að horfa upp á þennan einstakling [Mohamad Th. Jóhannesson] og hans sögu, að einhverju leyti vera að ögra okkur. Athafnir hans virka að sumu leyti eins og hann sé að draga dár að okkur og hann kemst í rauninni furðulangt með þetta allt og auðvitað eru það ekki góð skilaboð út í samfélagið,“ segir Helgi.

„Hann er búinn að hóta og ögra fólki í nokkur ár og hefur að einhverju leyti komist upp með þetta, þar til núna. Þannig að réttarkerfið hefur tekið við sér en manni finnst það kannski fullseint, að það hafi ekki verið hægt að stöðva þessa þróun fyrr,“ bætir hann við.

Dár dregið að okkur og blekkingartilgangur

Helgi túlkar mál manna á borð við Davíð Viðarsson og Mohamad Th. Jóhannesson sem dæmi um einstaklinga sem eru að gera gys að þjóðinni.

„Þetta er bara svolítið einstakt. Við höfum Davíð sem augljóslega var í einhverjum blekkingartilgangi og síðan Kourani sem er eins og ég túlka það, að draga dár að okkur. Hann virðist alltaf finna einhver spil uppi i erminni,“ segir hann.

Mohamad Th. Jóhannesson virðist njóta af meðvindinum

Helgi talar um hvað vandamálið er flókið varðandi það hvað Íslendingum hefur lengi verið í nöp við mannanafnanefnd því margir hverjir vilja að hægt sé að velja þau nöfn sem vilji er fyrir og að fólki verði treyst með val sitt.

„Kourani, nú Th. Jóhannesson, virðist njóta þessa meðvinds sem er í samfélaginu, að menn megi ráða nafni sínu sjálfir. Hann gerir þetta með því að taka upp nafn sem bæði dylur hans fortíð að einhverju leyti en er um leið að taka upp eftirnafn forseta okkar, sem manni finnst vera að draga dár að. Þá er spurningin auðvitað hvernig eigum við að bregðast við og taka á þessu?“ spyr Helgi.

„Hann hefur í raun verið hafður að ginningarfífli“

„Það er mikilvægt að hafa eitthvert eftirlit, hvort sem það sé ráðgjafi, nefnd eða annað, sem hefur eftirlit með þeim nöfnum sem tekin eru upp. Sagan sýnir okkur að það virðist vera full þörf á því. Eins og með Davíð Viðarsson, þar er hann beinlínis að taka upp nafn Íslendings, til að auðvelda sér aðkomu í íslenskt samfélag. Hann tekur upp nafn manns sem hann raunverulega hafði eyrnamerkt löngu áður,“ segir Helgi.

„Hann notar nafnið í þeim tilgangi að, má segja, blekkja og svíkja íslenska Davíð því hann uppgötvar þetta ekki fyrr en löngu seinna og situr svo uppi með þetta. Hann hefur í raun verið hafður að ginningarfífli.“

Þetta segir Helgi og bendir á að mikilvægt sé að hafa einhvern ramma sem kemur í veg fyrir að innflytjendur geti valið sér nöfn Íslendinga til þess eins að hyljast á bak við þau, eins og í máli Davíðs.

Engar áhyggjur af að þetta verði að vana

„Ég hef ekki trú á því að þessi mál séu fordæmi sem eigi eftir að vaxa úr hófi, að innflytjendur taki upp nöfn til að draga dár að, enda hafa flestir hverjir enga ástæðu til þess,“ segir Helgi aðspurður.

Hann segir að þörf sé á umgjörð sem er samhæfð og gengur upp í röklegu tilliti hvað varðar alla þessa þætti og á þá við hvernig hlutirnir skarist í samfélaginu varðandi mikla köllun eftir því að við eigum að geta valið okkur nafn að vild og sömuleiðis það að glæpamenn geti tekið upp eftirnafn forseta landsins eins og ekkert sé.

Hann bætir við að löggjöfin geti þó ekki bara átt við suma en ekki aðra og að jafnræðisreglunnar verði að vera gætt.

„Við getum ekki leyft sumum að ráða nafni sínu en öðrum ekki,“ segir Helgi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert