Útkall vegna tveggja slasaðra hjólreiðamanna

Þyrlan snéri við.
Þyrlan snéri við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvö útköll bárust til Landhelgisgæslunnar fyrir skömmu. Annað vegna ferðalanga á Sólheimajökli og hitt vegna hjólreiðamanna sunnan við Ásbyrgi. Þyrlan var á leið norður þegar útkall barst vegna ferðalanga á Sólheimajökli. Þyrlan er nú aftur á leið norður vegna slyss tveggja hjólreiðamanna.

 Rúv greindi fyrst frá.

„Þetta voru einstaklingar sem að lentu í einhverjum hrakningum þarna en komust svo með aðstoð annarra en þyrlu til byggða og eru óslasaðir eftir minni bestu vitund. Þyrlan snéri við frá þessu,“ segir Hreggviður Símonarson hjá bakvakt aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is um ferðalangana á Sólheimajökli.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir tvo hafa fallið ofan í lón við Sólheimajökul. Virst hafi í fyrstu eins og mennirnir kæmust ekki upp úr lóninu án aðstoðar. 

Féllu í lón

„Það var tilkynnt fyrst um reiðhjólaslys rétt suður af Ásbyrgi þar sem voru tveir einstaklingar á reiðhjólum, annar þeirra hafði fallið eitthvað smá og hinn raun og veru meitt sig eitthvað aðeins líka. Það er svo sem ekki vitað nákvæmlega, björgunaraðilar eru ekki komnir á staðinn.

„Skömmu síðar var tilkynnt um tvo einstaklinga sem að höfðu fallið í lónið suður af Sólheimajökli, komust ekki upp úr voru fyrstu tilkynningar. Björgunarsveitir á Vík og undir Eyjafjöllum og Hvolsvelli voru boðaðar út í það en þessir tveir einstaklingar sem að þar féllu í lónið komust upp úr," segir Jón Þór. Einstaklingarnir hafi verið komnir upp úr þegar björgunaraðila bar að og gátu gengið að sjúkrabíl. 

Björgunarsveita- og sjúkraflutningafólk á leiðinni

Hvað varðar reiðhjólaslysið segist Jón Þór ekki hafa skýrar upplýsingar um hvað gerist en reiðhjólamennirnir virðist báðir hafa fallið og meitt sig. 

„Björgunarfólk er ekki komið á staðinn, þetta er talsvert úr alfaraleið og ekki farið hratt yfir þarna,“ segir Jón þór en útkallið hafi borist um klukkan 12.15 og annað vegna Sólheimajökuls á svipuðum tíma. 

„Það er verið að fara þarna á fjórhjólum eða sexhjólum og reynt að komast að þeim sem fyrst. Björgunarsveitarfólk og sjúkraflutningafólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert