Viðskiptaráð svarar: Einkunnaverðbólga staðreynd

Viðskiptaráð svarar viðbrögðum ráðherra og KÍ.
Viðskiptaráð svarar viðbrögðum ráðherra og KÍ. Samsett mynd

Viðskiptaráð Íslands sakar Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, um að reyna að skauta umræðu um menntamál. Vísar ráðið í ummæli ráðherra þar sem hann kallaði umsögn VÍ óásættanlega og hjákátlega.

Óskar ráðið þess jafnframt að formaður Kennarasambands Íslands viðurkenni tilvist einkunnaverðbólgu enda sé það fyrsta skrefið í að finna lausn á vandanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðskiptaráði sem ber yfirskriftina Þrjár áréttingar um grunnskólamál.

Fer Viðskiptaráðið þar yfir viðbrögð KÍ og Ásmundar Einars við umsögn ráðsins í samráðsgáttinni þar sem áform um að leggja niður samræmdu könnunarprófin eru kynnt.

Prófin tímaskekkja

Í umsögninni talaði Viðskiptaráð m.a. gegn því að samræmd próf yrðu lögð niður áður en nýtt námsmat væri komið í gagnið og hefði sannað gildi sitt. Þá kallaði ráðið einnig eftir því að niðurstöður samræmdra prófa og PISA yrðu birtar opinberlega, sundurgreinanlegar niður á einstaka skóla.

Hvatti ráðið jafnframt framhaldsskóla að taka upp inntökupróf, á meðan engin samræmd próf væru lögð fyrir, til að tryggja jafnræði meðal umsækjenda.

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, hefur sagt samræmd próf tímaskekkju og að það sé gamaldagshugsunarháttur að láta eina einkunn ráða för.

„Viðskiptaráð hefur hvergi talað fyrir einu prófi í samræmdu námsmati. Ráðið er fylgjandi því að námsmat sé þróað og bætt í takti við það sem best tíðkast í skólastarfi. Það getur til dæmis verið í formi fleiri og styttri prófa, eins og starfshópur um námsmat lagði til,“ segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.

„Tillögur Viðskiptaráðs um áframhaldandi samræmd próf byggja á sjónarmiðum um jafnræði grunnskólabarna óháð búsetu og umbótum í skólastarfi. Það eru tímalaus gildi sem verða aldrei úrelt.“

Rannsóknir sýni einkunnaverðbólgu

Magnús Þór hafnaði því í kvöldfréttum ríkisútvarpsins á sunnudag að einkunnaverðbólga væri til staðar.

Í tilkynningu Viðskiptaráðs er vitnað í tvær rannsóknir sem fjalla um einkunnaverðbólgu á Íslandi. Tvö gröf fylgja tilkynningunni sem sjá má hér að ofan og neðar.

„Rannsókn Menntamálastofnunar á misræmi í einkunnagjöf grunnskóla frá árinu 2022 leiddi eftirfarandi í ljós: „35% nemenda búa við það að [skólaeinkunn] þeirra er líklega umtalsvert lægri eða hærri en hefði verið í öðrum skóla. [...] Ósamræmi er í hvernig námsmati er beitt eftir skólum.“,“ segir í tilkynningunni.

Þá er vitnað í tilkynningu á vef Verzlunarskóla Íslands þar sem fram kemur að einkunnir nemenda hafi hækkað mjög mikið frá því að samræmdu prófin voru aflögð.

„Misræmi í einkunnagjöf og einkunnaverðbólga eru alvarlegur vandi í íslensku grunnskólakerfi. Fyrsta skrefið í lausn á vandanum er að viðurkenna tilvist hans. Vonandi stígur formaður Kennarasamband Íslands það skref fyrr en síðar.“

Áður hefur mbl.is fjallað um einkunnaverðbólgu í íslenskum grunnskólum.

Ekki gagnrýni á störf kennara

Lýsir Viðskiptaráð jafnframt vonbrigðum með viðbrögð Ásmundar Einars. Sakar ráðið ráðherrann um að skauta umræðuna um menntun.

„Ráðherra brást við tillögum Viðskiptaráðs með því að kalla þær óásættanlegar og hjákátlegar. Hann segir þær fela í sér gagnrýni á störf kennara og annars starfsfólks menntakerfisins.“

Í tilkynningunni segir að umsögn ráðsins, þar sem aðkoma Kennarasambands Íslands að samráðsferlinu um fyrirhugaðar breytingar á lögum var gagnrýnd, feli ekki í sér gagnrýni á störf kennara.

Jákvæð viðbrögð frá mörgum kennurum

„Þvert á móti myndu tillögur Viðskiptaráðs bæta starfsumhverfi kennara. Þær myndu auka traust og gagnsæi í skólastarfi og draga úr þrýstingi af hálfu foreldra þegar kemur að einkunnagjöf,“ segir í tilkynningunni.

„Kennarar eru fjölmennur hópur og innan hans rúmast fólk með ólíkar skoðanir. Ráðinu hafa enda borist jákvæð viðbrögð frá fjölmörgum grunnskólakennurum sem eru ósáttir við núverandi fyrirkomulag námsmats, til dæmis vegna óskýrra viðmiða við námsmat, dvínandi færni barna og skorts á árangursmælikvörðum við kennslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert