„Björguðu lífi þessa fólks“

Sjá má vinstra megin við reipið hvar sprungan myndaðist.
Sjá má vinstra megin við reipið hvar sprungan myndaðist. Ljósmynd/Aðsend

Kona og karl á áttræðisaldri eiga skjótum viðbrögðum leiðsögumanna lífi sínu að launa. Þau féllu í sprungu sem tengdist lóninu fyrir framan Sólheimajökul og komust ekki sjálf upp úr henni.

Leiðsögumenn frá Arctic Adventures og Tröll voru mættir á vettvang skömmu eftir að þau féllu í sprunguna og toguðu þau upp með reipi.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að það sé hans mat að án viðbragðs leiðsögumannanna þá hefði fólkið ekki lifað þetta af.

„Miðað við upplýsingarnar sem berast til mín í upphafi þá er ég ekki í nokkrum vafa um að þau björguðu lífi þessa fólks,“ segir Jón Þór. 

Annar leiðsögumaður mætti

Leiðsögumaður hjá Arctic Adventures, sem bjargaði fólkinu ásamt öðrum, ræddi við mbl.is um björgunaraðgerðina. Hann vildi ekki koma fram undir nafni.

„Ég fékk ábendingu í talstöðinni frá kollega mínum um að eitthvað hefði skeð,“ segir hann.

Þegar leiðsögumaðurinn var kominn á vettvang sá hann fólkið í lóninu. Höfðu þau þá verið þar í um 5-6 mínútur.

„Á sama tíma og ég mætti kom annar leiðsögumaður frá öðru fyrirtæki. Hún kom með reipi,“ segir hann og útskýrir að hún starfi hjá Tröll. 

Toguðu fólkið upp með reipi

Leiðsögumaðurinn segir að hann hafi reynt að finna eitthvað til að festa reipið við til að geta dregið fólkið upp. Það gekk ekki þannig leiðsögumennirnir tveir héldu þéttingsfast um reipið og köstuðu því út í lónið til fólksins.

„Þau settu reipið utan um sig og við byrjuðum að toga,“ segir hann.

Fyrst voru það aðeins leiðsögumennirnir tveir sem hífðu upp karlinn. Þegar kom að því að hífa upp konuna voru þrír í viðbót mættir til að aðstoða.

Gengu um til að halda hita

Frá því að leiðsögumennirnir mættu á vettvang og þar til að sjúkraflutningamenn komu frá Vík í Mýrdal liðu um 20-25 mínútur að sögn leiðsögumannsins.

Hann segir að konan hafi verið við góða heilsu en karlinum hafi ekki liðið vel. Á meðan beðið var eftir viðbragðsaðilum gengu leiðsögumennirnir með fólkinu til að halda á þeim hita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert