Dagbjört dæmd í 10 ára fangelsi fyrir líkamsárás

Maðurinn lést í íbúð Dagbjartar í Bátavogi í Reykjavík í …
Maðurinn lést í íbúð Dagbjartar í Bátavogi í Reykjavík í september. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir var dæmd í tíu ára fangelsi fyrir líkamsárás í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þetta staðfestir Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Dagbjartar, við mbl.is. 

Dómur var kveðinn upp í gær, en vegna sumarlokunar héraðsdóms var dómur ekki kveðinn upp í dómssal heldur sendur rafrænt á málsaðila.

Dagbjört var ákærð fyrir að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana með því að hafa beitt mann­inn margþættu of­beldi dag­ana 22. og 23. sept­em­ber sem leiddi til and­láts hans.

Dæmd fyrir brot á 218. gr.

Tekist var á um ásetning Dagbjartar í málflutningi sækjanda og verjanda í aðalmeðferð málsins í júní.

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari vildi meina að Dag­björtu hefði verið ljóst að hún beitti veik­an mann áverk­um sem ættu eft­ir að leiða til dauða hans. Hún lýsti árás Dag­bjart­ar sem hrotta­legri.

Arnar Kormákur sagði að áverk­ar á hinum látna bentu hins vegar til að hún hefði mögu­lega viljað meiða hann, en að Dag­björt hefði reynt end­ur­lífg­un, hringt á Neyðarlín­una, heim­ilað rétt­ar­krufn­ingu og leyft lög­reglu fús­lega að skoða síma henn­ar. Það gerði ein­stak­ling­ur sem ætlaði að bana manni af ásetn­ingi ekki.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Dagbjört væri ekki sek um manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga.

Hún er hins vegar dæmd fyrir brot á 218. gr. 2. málsgrein þar sem segir:

Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Ef um stórfellt brot er að ræða getur fangelsi varðað allt að 16 árum, en líkt og áður sagði var Dagbjört dæmd í tíu ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert