Fara reglulega að Litla-Hrauni vegna eitrunar fanga

Halldór Valur segir það geta reynst arðbært að smygla lyfjum …
Halldór Valur segir það geta reynst arðbært að smygla lyfjum inn fangelsið Samsett mynd

Reglulega þarf að kalla til viðbragðsaðila með flýti að Litla-Hrauni vegna eitrunar fanga eftir neyslu lyfja og fíkniefna. Dæmi eru um að stór hluti fanganna sé í neyslu og því arðbært fyrir þá sem selja lyf og fíkniefni að smygla þeim inn í fangelsið.

Þetta segir Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður á Litla-Hrauni. 

Í fyrradag voru kallaðir til tveir sjúkrabílar og lögregla vegna fanga sem hafði tekið inn lyf. Að sögn Halldórs hafði það farsælan endi og fanginn heill heilsu.

Halldór segir talsvert um smyglvarningur sé gripinn á leið inn í fangelsið.

„Þetta er svolítið sveiflukennt. Það hafa komið tímabil þar sem við erum að glíma við meiri lyfjamisnotkun og fíkniefnaneyslu en á öðrum tímum,“ segir Halldór.

Í sumar eru um 60-65 fangar á Litla-Hrauni. Hluti fangelsisins er lokaður en alla jafna eru 85 pláss í fangelsinu. 

Litla-Hraun
Litla-Hraun mbl.is/Sigurður Bogi

Lyf frá læknum gangi kaupum og sölum 

„Oft er erfiðast að eiga við þetta þegar þetta eru einhvers konar lyf en ekki beinlínis fíkniefni. Fangar eru á ýmsum lyfjum sem eru uppáskrifuð af læknum. Í einhverjum tilvikum tekst föngum að safna þeim og komast undan því að nota þau sjálfir. Þá fara menn jafnvel að selja þau inni í fangelsinu. Það getur verið erfitt að eiga við það,“ segir Halldór.

Hann segir að lyfin sem eru á sveimi um fangelsið séu af ýmsum toga. Meðal annaras geðlyf, niðurtöppunarlyf, lyf fyrir þá sem eru í fráhvarfsmeðferðum og fleira.

„Þetta eru allt lyf sem hægt er að misnota,“ segir Halldór.

Stór hluti einhvers konar fíklar 

Halldór segir aðspurður að stór hluti fanga noti einhvers konar lyf að jafnaði.

„Stór hluti fanga er einhvers konar fíklar. Stundum er lyfjanotkunin bundin við einhvern einangraðan hóp, en oft er samsetningin þannig að það getur verið mjög arðbært að koma hingað inn einhvers konar sendingu vegna þess hve margir eru virkir fíklar,“
segir Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert