Hefði átt að setja neyðarstjórn yfir Grindavík

Þormar Ómarsson og Gylfi Arnar Ísleifsson eigendur Papa's pizza.
Þormar Ómarsson og Gylfi Arnar Ísleifsson eigendur Papa's pizza. mbl.is/Eyþór

„Það sem hefði þurft að gerast eftir 10. nóvember var að setja bæjarstjórnina af og setja bara neyðarstjórn yfir bæinn,“ segir Þormar Ómarsson, einn eiganda veitingastaðarins Papa's Pizza í Grindavík.

Framkvæmdarnefnd um málefni Grindavíkur, eða Grindavíkurnefnd, tók formlega til starfa þann 1. júní þegar ný lög tóku gildi. Að mati Þormar hefði bæjarstjórnin átt að segja af sér um leið að nefndin var sett.

„Bæjarstjórnin er til að sjá um skóla- og skipulagsmál og svoleiðis. Þetta er bara venjulegt fólk. Það er enginn bæjarstjórn kjörin til þess að taka svona hlutverk að sér. Í staðinn fyrir að segja af sér og draga sig til hlés þá er enn þá sama fólk í bæjarstjórninni á meðan það er búið að færa þetta í hendur ríkisins. Það situr enn þá og þiggur laun á meðan öðrum starfsmönnum hefur verið sagt upp.“

Gylfi og Þormar pizzukóngar í Grindavík.
Gylfi og Þormar pizzukóngar í Grindavík. mbl.is/Eyþór

Má ekki bíða of lengi

Að mati Þormars hefði uppbygging bæjarins átt að hefjast í vor. Hann það vera fullt af hlutum sem þurfi að gera og hafi alveg gleymst síðan í nóvember.

„Það er ekki einu sinni verið að slá. Hér eru bara tveir eða þrír frá bænum að reyna halda honum snyrtilegum. Fólk er enn þá að taka ákvörðun hvort það vilji vera hérna aftur. Hvernig á fólk að vilja vera hérna ef það er ekkert að gerast í bænum? Við getum ekkert beðið endalaust. Ef það telur ekkert vera að gerast þá kemur það ekki aftur.“

Situr og bíður

Þormar hefur búið í Grindavík í 30 ár. Hann býr enn í bænum en þó einsamall þar sem fjölskyldan hans er nú búsett í Reykjavík á meðan bærinn er lokaður.

Nú sitja hann og Gylfi meðeigandi veitingastaðins og biða eftir að bærinn opni á ný svo þeir geti opnað staðinn og tekið á móti kúnnum.

„Það er náttúrulega ofboðslega mikið af verðmætum í Grindavík og við eigum hérna fyrirtækið sem við getum ekkert gengið frá.“

Þormar bíður eftir að bærinn opnar.
Þormar bíður eftir að bærinn opnar. mbl.is/Eyþór

Nýr áfangastaður fyrir ferðamenn

„Það er líka eitthvað sem mun eflaust mistakast í öllu þessu rugli er að verðmeta eitthvað sem skiptir máli. Því þessir atburðir eru merkilegir fyrir fólk.“

Áður fyrr höfðu ferðamenn stoppað á veitingastaðnum eftir bláa lónið og spurt félagana hvort það væri nokkuð eitthvað merkilegt hér að sjá. Þá var svarið oftast bara höfnina.

„Núna er þetta merkilegur áfangastaður fyrir túrista að skoða. Hér er hraun út um allt, sprungur, ónýtt hús sem verða líklegast rifinn. Það er eins og með íþróttahúsið sem á að rífa. Þar er risa sprunga. Ég hefði viljað bjarga því og gera að sögulegum áfangastað fyrir ferðamenn. Fótboltavöllur með risa sprungu er einstakt dæmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert