Tveir fimmtán ára vinir hjóla nú frá Reykjavík til Akureyrar til styrktar Hringnum.
Á þriðjudagsmorgun klukkan sex lögðu vinirnir Þórbergur Rúnarsson og Einar Dagur Brynjarsson, hjólandi af stað úr 108 Reykjavík áleiðis til Akureyrar.
Blaðamaður mbl.is tók púlsinn á strákunum þegar þeir voru að leggja af stað frá Blönduósi til Akureyrar, síðasta spölinn.
Þórbergur og Einar fengu hugmyndina að hjóla til Akureyrar í vor og á ferðalagið að vera hluti af lokaverkefni þeirra í 10. bekk í Réttarholtsskóla á næsta ári. Ákváðu þeir að safna áheitum til styrktar kvenfélaginu Hringnum, sem styður við Barnaspítala Hringsins.
„Hugmyndin að lokaverkefninu kom þegar við Einar vorum að spila Minecraft og vorum að skoða lokaverkefni fyrir 10. bekk. Ég sagði við Einar „nennir þú að hjóla til Akureyrar?“ og beint eftir það byrjuðum við að plana allt,“ segir Þórbergur.
„Lokaverkefnið verður kynning, við verðum með myndbandsklippur og myndir úr ferðinni. Segja hvað við gerðum og hverjir voru að styrkja okkur,“ segir Einar.
Hvernig fenguð þið hugmyndina að styrkja Hringinn?
„Amma mín er mikill partur af kvenfélaginu Hringnum, hún á 70 ára afmæli 27. júlí svo þetta var svona smá afmælisgjöf fyrir hana,“ segir Einar.
Þórbergur og Einar segja málefnið gott og mikilvægt.
Fyrsta daginn hjóluðu þeir 142 kílómetra alla leið á Varmaland og lentu í mikilli rigningu og drullu þegar þeir hjóluðu yfir Dragann á fjallahjólum. Í morgun komu þeir á Blönduós eftir að hafa hjólað 155 kílómetra frá Varmalandi.
„Við tjölduðum sjálfir í gær en pabbi Einars tjaldaði fyrir okkur í dag,“ segir Þórbergur.
Þeir segjast vera þreyttir, enda sofi þeir lítið. „Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt ferli en smá erfiðara en ég hélt,“ segir Einar.
Spurðir hvernig þeir næri sig á leiðinni segjast þeir drekka mikið, borða samlokur og að lítið sé um „lúxus mat.“
Rúnar Pálmason, faðir Þórbergs, segir í samtali við mbl.is að strákarnir séu í áberandi klæðnaði og með góð afturljós og framljós.
„Við foreldrarnir ætlum að fylgja þeim eins og kostur er, við erum að drepast úr stressi,“ segir Rúnar og hvetur fólk sem er á leiðinni norður að fara varlega í umferðinni.
Strákarnir lögðu af stað í kvöld til Akureyrar og stefna á að vera komnir um átta leytið í fyrramálið. Þeir hjóla á nóttunni og snemma á morgnanna, þegar umferðin er sem minnst.
Hvað er það fyrsta sem þið ætlið að gera þegar þið komið til Akureyrar?
„Sofa,“ segja þeir í kór og hlæja. Þeir segjast einnig ætla að fara í sund, í ísbúð og í bakarí á Akureyri.
„Styrkið Hringinn,“ segja þeir að lokum.
Hægt er að styrkja Hringinn og hvetja strákana áfram með því að leggja inn pening.
Kennitala: 640169-4949
Reikningsnúmer: 101-26-054506
Til að Hringurinn viti að áheitið sé vegna strákanna þá þarf að senda kvittun með skýringunni #verkefnið2024 á formadur@hringurinn.is.