Lentu á Langasandi: Freista þess að laga skrúfuna

Santiago Girardbille hefur verið í skútuklúbbnum áratugum saman. Hann hefur …
Santiago Girardbille hefur verið í skútuklúbbnum áratugum saman. Hann hefur því mikla reynslu af því að sigla skútum um heimsins höf. mbl.is/Klara Ósk

Seglskútu með sjö manns um borð var lent á Langasandi á Akranesi fyrr í dag vegna bilunar í skrúfu skútunnar. Nú stendur skútan því í fjöruborðinu þar sem unnið er að viðgerð. 

Santiago Girardbille, sem sér um viðhald skútunnar, útskýrir í samtali við mbl.is að skipstjóri skútunnar hafi ákveðið að landa henni á Langasandi og freista þess að laga skrúfuna þar.

Vandamálið sé aftur á móti að réttur varahlutur er ekki með í för heldur einungis sambærilegt stykki sem þarf að sníða til þannig að hægt sé að laga skrúfuna. 

Hér má sjá hvar vantar stykki fremst á skrúfuna. Unnið …
Hér má sjá hvar vantar stykki fremst á skrúfuna. Unnið er að því að sníða sams konar stykki á skrúfuna til að hópurinn geti skilað skútunni af sér með góðri samvisku. mbl.is/Klara Ósk

Sníða sér stakk eftir vexti

„Við héldum að við værum með tvö stykki til vara, en því miður erum við það ekki. Við erum með eitt svipað stykki, en það passar ekki alveg. Þannig að við erum að reyna að sníða það að því sem við þurfum,“ segir Girardbille og bætir við:

„Sem krefst dálítillar handavinnu, en ég held að okkur takist það áður en það flæðir að aftur.“

Aðspurður segir hann hópinn þannig eiga að geta verið kominn aftur út á sjó rúmlega sjö í kvöld. Þau geti þó ekki unnið lengur en til klukkan hálf sex því þá verði sjórinn kominn í flæðarmálið. 

Heldur þú að ykkur takist að laga skrúfuna fyrir það? 

„Ef allt hefði gengið eftir óskum þá hefði þetta verið meira en nægur tími, en af því að við erum að glíma við þetta vandamál þá verðum við bara að sjá hvernig mun ganga.“

Ef ekki tekst að sníða varahlutinn þannig að hann passi á skrúfuna verður að sigla skútunni til Reykjavíkur, hífa hana á land og vinna að viðgerð þar, segir Girardbille. Gallinn sé aftur á móti að það geti tekið langan tíma. 

Ákveðið var að lenda skútunni á Langasandi og freista þess …
Ákveðið var að lenda skútunni á Langasandi og freista þess að vinna að viðgerð þar. mbl.is/Klara Ósk

Allt kapp lagt á að koma skrúfunni í lag 

Skútan sigldi frá Southern Brittany í Frakklandi, í gegnum Írlandshaf, fram hjá Skotlandi og Færeyjum. Undanfarið hafi hún verið á siglingu í kringum Ísland, en hópurinn sem nú er um borð tók við henni á Ísafirði þaðan sem þau sigldu á Akranes.  

Um er að ræða hóp fólks sem er hluti af 6.000 manna skútufélagi í Swiss. Félagar skútufélagsins skiptist á að nýta skútuna og því er einungis tilviljun að Girardbille sé um borð í henni að þessu sinni.

Raunar segir hann að komið sé að leiðarlokum hjá núverandi áhöfn því á morgun sé ráðgert að ný áhöfn taki við skútunni í Reykjavík þaðan sem leið þeirra liggur til Færeyja, en ný áhöfn tekur við skútunni á tveggja vikna fresti. 

Hann segir hópinn sem nú er um borð þó vilja skila skútunni af sér í lagi og því sé allt kapp lagt á að koma skrúfunni í samt lag. 

Spurður hvort hægt sé að sigla skútunni án þess að gera við skrúfuna segir hann það vel hægt. Það sé þó betra að hafa allt eins og það á að vera. „Það væri vel hægt að sigla til Reykjavíkur og meira að segja til Færeyja,“ segir hann. 

Ef allt gengur að óskum verður skútan aftur komin út …
Ef allt gengur að óskum verður skútan aftur komin út á sjó rúmlega sjö í kvöld. mbl.is/Klara Ósk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert