Mikill viðbúnaður en betur fór en á horfðist

Töluverðan fjölda lögreglubíla dreif að.
Töluverðan fjölda lögreglubíla dreif að. mbl.is/Ólafur

Mikill viðbúnaður var á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar á áttunda tímanum í gærkvöldi í kjölfar áreksturs pallbíls og lögreglubíls.

Töluverðan fjölda lögreglubíla dreif að en þar á meðal voru nokkrir ómerktir bílar auk bifhjóla.

Þá voru sjúkrabílar kallaðir út og tækjabíll frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Lögreglumaður fastur í bílnum

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, skýrir þennan mikla viðbúnað fyrst og fremst af því að tilkynning kemur frá lögreglumönnunum sjálfum um að áreksturinn hafi verið mjög harður og að fljótlega hafi komið í ljós að lögreglumaður væri fastur í lögreglubílnum.

Þá segir Unnar að um stærstu gatnamót landsins sé að ræða og þess vegna oft sendur mikill mannskapur á vettvang. Vitað hafi verið í upphafi að um hugsanleg meiðsli hefði verið að ræða á fólki í hinum bílnum og þegar allt væri talið hefði litið út fyrir að um mjög alvarlegt slys væri að ræða, sem reyndist sem betur fer ekki vera.

Hann segist þó ekki geta útilokað að viðbúnaður hafi verið meiri þar sem lögreglumenn á lögreglubíl áttu í hlut.

Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segist ekki geta útilokað að …
Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segist ekki geta útilokað að viðbúnaður hafi verið meiri þar sem lögreglumenn áttu í hlut. mbl.is/Ólafur

Á leið í alvarlegt útkall

Unnar segir annað lögreglumál ekki tengjast árekstrinum, ekki hafi verið um að ræða eftirför eða annað í þeim dúr. Lögreglubíllinn hafi hins vegar verið á leið í alvarlegt útkall þegar áreksturinn varð.

Segir hann aðspurður talsvert af ómerktum bílum í umferð í dag og að umferðardeildin hafi komið á hjólum til að stýra umferðinni.

„Það þarf talsvert mikinn mannafla til að verja vinnusvæðið. Við erum með fólk að vinna þarna og það er hraði á þessum gatnamótum og því miður er það þannig við þessi gatnamót að ökumenn eru ekki alltaf að virða okkar vinnusvæði sem kostar að við þurfum að girða þetta vel af.“

Pallbíllinn var illa farinn og klippa þurfti lögreglumann út úr …
Pallbíllinn var illa farinn og klippa þurfti lögreglumann út úr lögreglubílnum. mbl.is/Ólafur

Tók tíma að klippa lögreglumanninn út

Segir hann þó aðspurður að almenningur hafi ekki verið til neinna vandræða í gær.

„Það tók hins vegar tíma að klippa lögreglumanninn út og koma þessum þremur einstaklingum á sjúkrahús og vinna að vettvangsrannsókninni sjálfri,“ segir Unnar.

Betur fór en á horfðist og flestallir sluppu með minniháttar meiðsli en lögreglumaðurinn sem var klipptur út úr bílnum hlaut minniháttar beinbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert