Myndband: Hnúfubakar komu fjölskyldu á bát á óvart

Hægt er að segja að þremur börnum sem héldu í bátsferð með afa sínum hafi heldur betur brugðið í brún þegar nokkrir hnúfubakar birtust þeim alveg upp við bátinn mjög nálægt landi á Borgarfirði eystri.

„Ekki þegar þau fóru út, afinn ætlaði að hafa þetta bátaupplifun fyrir krakkana og tók með veiðistangir. Svo bara sáu þau allt í einu hnúfubaka synda í kringum bátinn og kíkja upp.“

Þetta segir Sandra Jónsdóttir, móðir barnanna þriggja á bátnum, í samtali við mbl.is, spurð hvort fjölskyldan hafi vitað af hnúfubökunum þegar þau héldu í bátsferðina. Meðfylgjandi myndskeið hér að neðan tók Malen Áskelsdóttir.

Á efra myndbandinu, sem Kinan Kadoni tók með dróna, sést hversu nálægt höfninni hvalirnir eru, en fjöldi fólks fylgdist með þeim af bryggjunni.

Vildi fara á bak hnúfubakanna

Pabbi Söndru, afinn á bátnum, er fæddur og uppalinn á Borgarfirði eystri. Var hann á ferð með tveimur afastrákum sínum og einni afastelpu. Brá öllum þegar hvalirnir birtust, en þegar leið á sagðist yngsta stelpan hins vegar hreinlega vilja fara á bak hnúfubakanna.

Í dag stefna þau á að fara aftur út á bátinn enda fannst börnunum þetta mjög spennandi.

„Þau eiga eftir að muna eftir þessu að eilífu,“ segir Sandra að lokum.

Hnúfubakarnir í hið minnsta átta

Áskell Heiðar Ásgeirsson, Bræðslustjóri á Borgarfirði eystri, segir hnúfubakana vera átta til tíu talsins í samtali við mbl.is.

Hann segir þá heldur betur hafa valið góðan tíma til að láta sjá sig þar sem Bræðslan fer fram í bænum um helgina. Hafa þeir verið að leika listir við ströndina fyrir gesti og gangandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert