Play tapað 4,2 milljörðum það sem af er ári

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play. mbl.is/Unnur Karen

Tap flugfélagsins Play á öðrum ársfjórðungi var 8,05 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur um 1,1 milljarði króna. EBIT rekstartap var hins vegar 4,5 milljónir dollara. Til samanburðar var rekstarniðurstaðan (EBIT) neikvæð um 0,9 milljónir dollara eða því sem nemur um 120 milljónium króna á sama ársfjórðungi í fyrra.

Það sem af er ári hefur félagið tapað um 29,7 milljónum dala eða því sem nemur 4,2 milljörðum króna.

Þrátt fyrir rekstartap var 13% aukning í farþegatölum og jókst sætanýting um 1% eða úr 85% í 86% á tímabilinu. Tekjur Play jukust um 7% á milli ára eða úr 73,1 milljónum bandaríkjadala í 78,3 milljónir bandaríkjadala.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Play fyrir annan ársfjórðung ársins 2024.

Biðlar til stjórnvalda 

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, segir rekstarniðurstöðuna litast af lakari frammistöðu í tengiflugi yfir Atlantshafið og helgast það af auknu framboði annars staðar í beinu flugi á þeim flugleggjum.

Eins segir hann að markaðssókn nágrannaþjóða hafi haft mikið að segja um færri ferðamenn til landsins. Biðlar hann til stjórnvalda að bæta fjármagni í markaðssetningu landsins.

Traust staða 

„Þrátt fyrir að niðurstaða fyrstu sex mánaða þessa árs hefði mátt vera betri, þá lítum við björtum augum á það sem eftir lifir árs. Við höfum aðlagað áætlun okkar að árstíðarsveiflum og vinnum stöðugt að því að halda kostnaði okkar eins lágum og mögulegt er og höfum því gripið til aðgerða til að draga úr kostnaði fyrirtækisins. Þá er bókunarstaða okkar sterk inn á fjórða ársfjórðung.

Sjóðsstreymi í öðrum ársfjórðungi var minna en á sama tíma í fyrra, að mestu vegna þess að vöxtur okkar var minni milli fjórðunga í ár og einnig vegna ögn verri fjárhagsniðurstöðu.

Staða okkar er mjög traust, við höfum stöðugt bætt reksturinn á hverju ári og munum halda því áfram, og munum hér eftir sem áður bjóða fólki upp á flug á frábæru verði til spennandi áfangastaða,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert