Pósturinn varar við svikapóstum

Nafn Póstsins hefur ítrekað verið misnotað af svikahröppum.
Nafn Póstsins hefur ítrekað verið misnotað af svikahröppum. Ljósmynd/Aðsend

Nafn Póstsins hefur ítrekað verið misnotað af svikahröppum og segir Jökull Jóhannesson, tæknirekstrarstjóri hjá Póstinum, ástæðu til að vara fólk við.

Þetta segir í tilkynningu frá Póstinum.

Fólki bent á að skrá sig á Mínar síður á posturinn.is

Í tilkynningunni segir að netþrjótar hafi herjað á landsmenn sem aldrei fyrr undanfarnar vikur og að viðskiptavinir Póstsins hafi ekki farið varhluta af því. 

„Margir eru orðnir ansi lunknir við að bera kennsl á svikapósta en oft þarf að rýna í þá til að átta sig á hvers kyns er,“ er haft eftir Jökli í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að Jökull bendi fólki á að skrá sig á Mínar síður á posturinn.is. „Þar má sjá yfirlit yfir allar sendingar og hægt að fullvissa sig um hvort raunverulega sé von á sendingu eða ekki.“ 

Þar segir einnig að nafn Póstsins hafi ítrekað verið misnotað af svikahröppunum og að Jökull segi mikilvægast að smella aldrei á hlekki í slíkum póstum.

„Allar greiðslur til Póstsins fara í gegnum Mínar síður eða appið svo viðskiptavinir okkar eru aldrei beðnir um að smella á einhverja vefslóð í tölvupósti eða SMS-skilaboðum til að borga,” er haft eftir Jökli í tilkynningunni.

Besta leiðin að skoða netfangið sem pósturinn er sendur úr

Í tilkynningunni er haft eftir Jökli að besta leiðin til átta sig á því hvort um sé að ræða svikapóst eða ekki sé að skoða netfangið sem pósturinn er sendur úr. „Tölvupóstur sem kemur frá Póstinum hefur alltaf endinguna @postur.is eða @posturinn.is.“

„Við mælum með að fólk hafi strax samband við viðskiptabankann sinn og svo væri gott ef viðkomandi myndi áframsenda svikapóstinn á oryggi@posturinn.is því þannig getum við reynt að sporna gegn netveiðum af þessu tagi," er haft eftir Jökli í tilkynningunni, hvað skuli gera ef fólk slysast til að ýta á hlekk í svikapósti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert