Rannsókn á manndrápi í sumarhúsi í Kiðjabergi í uppsveitum Árnessýslu 20. apríl er á lokastigi, að sögn Jóns Gunnars Þórhallssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Hann segir að rannsókninni miði vel og vonast hann til þess að henni ljúki í sumar.
Litháískur karlmaður er grunaður um manndráp í sumarhúsinu í Kiðjabergi. Samlandi hans var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á vettvang.
Upphaflega voru fjórir menn handteknir þann 20. apríl en tveimur síðar sleppt. Hinir tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald en öðrum þeirra var síðar sleppt.
„Aðal sakborningurinn í því máli er enn í afplánun út af öðru máli,“ segir Jón Gunnar í samtali við mbl.is.