Segir PISA-niðurstöðurnar endurspegla menntakerfið

Lilja D. Alfreðsdóttir var menntamálaráðherra 2017 til 2022.
Lilja D. Alfreðsdóttir var menntamálaráðherra 2017 til 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árangur íslenskra nemenda versnaði til muna í PISA-könnuninni árið 2022 frá fyrri árum, þar sem þróunin hafði þó verið niður á við. Hvergi var fallið hærra innan OECD en hér á landi.

„Þegar við sjáum PISA-niðurstöðurnar versna svona þá er það auðvitað endurvarp á menntakerfi síðustu ára,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og menntamálaráðherra á árunum 2017 til 2021.

Prófið varpi því helst ljósi á hver þróunin er. „Þetta er þróun sem er búin að vera að eiga sér stað. Við verðum að gera betur til að öll börn njóti jafnræðis og jafnra tækifæra.“

Ráðherrann leggur áherslu á að það sé lykilatriði að samræmt mat sé í menntakerfinu og að upplýsingar um þróun menntakerfisins séu gagnsæjar. Það sé nauðsynlegt fyrir nemendur, kennara, foreldra og menntakerfið að vita hvar börn standa, og hvar kerfið stendur.

„Ef þú veist ekki hvar þú stendur, hvernig ætlarðu þá að bæta kerfið? Ég legg mjög mikla áherslu á að það verði vandað til verka í hinum samræmda matsferli en það verði reynt að fara í þetta eins fljótt og auðið er svo það sé hægt að fá þessa samræmdu nálgun,“ segir Lilja.

Stofnunin réð ekki við verkefnið

Lilja  segist ekki hafa viljað leggja niður samræmdu könnunarprófin með þeim hætti sem gert var árið 2021. Menntamálastofnun hafi aftur á móti ekki ráðið við framkvæmd prófanna og því hafi ekki verið hægt að bjóða nemendum og kennurum upp á að taka þau.

„Menntamálastofnun réð ekki við framkvæmdina þrátt fyrir að við værum búin að aðstoða þá, koma með leiðbeiningar og tillögur að framkvæmd um hvernig væri hægt að gera þetta – þær bara gengu ekki upp. Kerfið hrundi að minnsta kosti tvisvar og það kann ekki góðri lukku að stýra,“ segir Lilja í samtali við Morgunblaðið um aðdraganda þess að samræmd könnunarpróf voru lögð af fyrir nokkrum árum.

Ekkert hefur komið í stað þeirra, eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa greint frá, og ekki er ljóst hvenær nýtt námsmat verður tilbúið til notkunar.

Viðtalið við Lilju má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert