Sögulegt spjallsvæði lagt niður

Hópurinn er nú lokaður og hefur fengið nýtt nafn.
Hópurinn er nú lokaður og hefur fengið nýtt nafn. Ljósmynd/Píratar

Píratar hafa aftengt sig Pírataspjallinu 2.0, tæplega 12 þúsund manna Facebook-hóp þar sem skoðanaskipti flokksmanna fóru fram um árabil. Hópurinn er nú lokaður og hefur fengið nýtt nafn.

Píratar samþykktu tillögu á félagsfundi í maí 2023 að skilgreina Pírataspjallið ekki sem umræðuvettvang Pírata og hefur flokkurinn því hvorki skyldur né ábyrgð gagnvart hópnum. Heimildin greindi fyrst frá.

Spjallið var stofnað fyrir um ellefu árum en var fest í stefnu flokksins árið 2016. En síðasta árið hefur það ekki tengst flokknum með beinum hætti.

Í grunnstefnu Pírata, nánar til tekið grein 5.2., segir aftur á móti: „Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.“ 

Lengi deilt um að loka hópnum

Hópurinn – sem hét fyrst bara „Pírataspjallið“, síðan „Þjóðarsálin: Pólitískt spjallsvæði“ og loks „Pírataspjallið 2.0“ – hefur verið vettvangur skoðanaskipta um hríð.

Var markmiðið upphaflega að efni þess hóps myndi endurspegla það sem Píratar stæðu fyrir, grunnstefnu Pírata og Píratakóðann, alþjóðlegan sáttmála Pírata um allan heim.

Lengi hefur verið rætt innan flokksins um að stofna frekar lokaðan umræðuvettvang fyrir  flokks­bundna Pírata, enda eru ekki allir meðlimir Pírataspjallsins 2.0 flokksmenn.

Slíka umræðu má rekja alla leið til ársins 2015 og hófust þannig deilur innan flokksins sem urðu að margumfjölluð fréttamáli.

„Við þökkum ykkur samfylgdina“

„Nú er tækifæri til að finna annan vettvang fyrir þá umræðu sem hér fer fram og er unnið að því að leggja þennan hóp niður. Við þökkum ykkur samfylgdina,“ skrifaði Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, í færslu á Pírataspjallinu 2.0 í gær. 

Hún benti á að Pírataspjallið hefði verið stofnað sem vettvangur þar sem fólk ræddi málefni Pírata.

„Vilji fólk ná tali af Pírötum verða til þess næg tækifæri á næstunni. Aðalfundur félagsins fer fram þann 7. september og verður haustdagskráin kynnt þar – ýmsir fundir, viðburðir og fleira spennandi,“ sagði hún enn fremur og vísaði að öðru leyti til heimasíðu Pírata og síma og lokaði með orðunum:

„Með Píratakveðju.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka