„Það er engu líkara en þessar samfélagsbreytingar sem hafa orðið upp úr aldamótum séu svo hraðar að það séu bara öflugustu börnin sem ráða við þetta og þau sem eru með flókin frávik í taugaþroska eða búa við erfiðar félagslegar aðstæður virðist eiga erfitt með hraðann. Ég held að það sé það sem tölur barnaverndar eru að sýna,“ segir Björn Hjálmarsson yfirlæknir á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL.
Á mánudag fjallaði Morgunblaðið um að tilkynningum til barnaverndar hefði fjölgað mikið það sem af er ári. Tilkynningum um áhættuhegðun fjölgaði um 31,8% og tilkynningum um vímuefnaneyslu barna um 118,9%. Þá var í gær fjallað um að tilvísanir til Geðheilsumiðstöðvar barna hefðu meira en tvöfaldast frá 2020.
Spurður hvað hann telji valda þessum aukna vanda bendir Björn á aukinn hraða í samfélaginu sem valdi streitu hjá börnum.
„Ég óttast að við séum ómeðvitað að ræna bernskunni frá börnunum okkar. Ómeðvitað eru þau farin að lifa eins og fullorðnir og það sem er kannski mest himinhrópandi er þessi stafræna bylting og þessi nánast takmarkalausi aðgangur barna að efni sem er þeim sannarlega skaðlegt.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.