Telja þörf á viðhaldi vegna sólmyrkvans 2026

Sólmyrkvi mun sjást afar vel á Vestfjörðum.
Sólmyrkvi mun sjást afar vel á Vestfjörðum. AFP

Páll Vilhjálmsson, formaður bæjarráðs Vesturbyggðar segir brýnt að ráðist verði í fullnægjandi lagfæringar á innviðum, s.s. vegum í tengslum við almyrkvann sem verður frá Vestfjörðum, þann 12. ágúst 2026. 

Myrkvinn mun ná hápunkti sínum á Vestfjörðum, og þá sérstaklega á Látrabjargi en því er búist við að talsverður fjöldi muni gera sér ferð þangað til að berja hann augum. 

Bæjarráð Vesturbyggðar setti því nýverið á fót sérstakan starfshóp, en Páll er einn þeirra sem situr í hópnum. Hann segir að undibúningsvinna muni hefjast nú í haust, og að þar verði allt kapp lagt á tryggja aukin þolmörk svæðisins.

Innviðauppbygging nauðsynleg

Páll segir fyrstu fyrirspurnir áhugasamra ferðamanna hafa fyrst farið að berast fyrir um 10 árum síðan. Þó að fjöldi þeirra sem hyggist heimsækja svæðið sé enn óljós, má til samanburðar nefna að samkvæmt bandaríska tímaritinu Time magazine, ferðuðust um 5 milljónir manna árið 2017 til þeirra svæða þar sem sólmyrkvi var sjáanlegur á meginlandi Norður-Ameríku. 

„Jafnvel þó við fáum bara brotabrot af þeim fjölda, gætum við átt í erfiðleikum með að taka á móti öllum," segir Páll. Því sé bráðnauðsynlegt að hugað sé að innviðum á svæðinu þannig að fólk geti farið um á öruggan hátt.

„Vegurinn út að látrabjargi kemur auðvitað fyrst upp í huga hvað þetta varðar. Nú eru umræður um að ráðast í endurbætur á tveimur köflum hans, en vegurinn er malarvegur og ástand hans getur því verið afar misjafnt,“ segir Páll. 

Krefst samhæfingar

Páll segir verkefnið undirbúning fyrir sólmyrkvann því krefjast gífurlegrar samhæfingar milli allra hlutaðeigandi aðila, s.s. landeigenda, hótelrekenda og vegagerðarinnar.

Viðbúið sé að aðsókn að tjaldsvæðum og gistiheimilum á svæðinu verði talsverð, en auk þess hefur fjöldi skemmtiferðaskipa sýnt mikinn áhuga fyrir því að hafa viðkomu á Patreksfirði og víðar, í kringum sólmyrkvann.

„Einhverstaðar þarf allt þetta fólk að borða og fara á klósettið. Það er mikilvægt er allt gangi smurt fyrir sig og það komi ekki til með að stór sjá á svæðinu þegar þetta er yfirstaðið,“ segir Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert