„Þú ert bara orðin miðaldra kona“

Áhyggjulaus en vinnusöm æska á býli í Borgarfirðinum snemma á …
Áhyggjulaus en vinnusöm æska á býli í Borgarfirðinum snemma á níunda áratug aldarinnar sem leið. Eurovision-kvöldin voru heilög í sveitinni segir Kristín frá, þá var farið klukkutíma fyrr í fjósið og móðir þeirra systkinanna keypti snakk. Nammi var sjaldséð. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ólst upp í Andakílnum, fyrst á Ytri-Skeljabrekku, en svo fluttumst við, foreldrar mínir og systkini, upp á Mið-Fossa upp úr 1980,“ segist Kristínu Gísladóttur frá, fyrrverandi aflraunakonu, ef svo mætti orða það, liðtækum kúluvarpara og knattspyrnukonu, sem var römm að afli sem barn og unglingur eftir íslenska sveitavinnu og -puð upp á gamla mátann.

Íslenskir fjöl- og samfélagsmiðlar hafa undanfarið tæpt á konum sem lyft hafa Húsafellshellunni alræmdu, þeim 186 kílógramma hnullungi, áður en Þjóðverjinn Sandra Bradley sagði af lyftu sinni árið 2019 auk þess sem hún lyfti sönnum prófsteini, Fullsterkum á Djúpalónssandi, núna í júlí, ef marka má frásögn hennar og myndir á samfélagsmiðlinum Instagram.

Þar greinir hún einmitt frá lyftunni á Húsafelli fyrir fimm árum.

Komst þá í hámæli að Kristín hefði lyft hellunni í skólaferðalagi með Kleppjárnsreykjaskóla árið 1987, þá tæplega fjórtán ára gömul, og fýsti Morgunblaðið í kjölfarið að heyra meira af ferli Borgfirðingsins enda virðist hamremmi og ómennskur styrkur loða við konur með þessu nafni þar um slóðir ef litið er til þeirra Kristínar Þórhallsdóttur dýralæknis sem vart sækir það mót í klassískum kraftlyftingum svo þar riði standandi met ekki til falls.

Kristín með Húsafellshelluna í fanginu tæpra fjórtán vetra gömul á …
Kristín með Húsafellshelluna í fanginu tæpra fjórtán vetra gömul á útmánuðum ársins 1987. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var venjuleg sveit“

En aftur að Kristínu Gísladóttur, nú leikskólastjóra Uglukletts í Borgarbyggð og miðstykkinu aldurslega séð í fimm systkina hópi, sem á sér hefðbundna sveitarfortíð sinnar og eldri kynslóða þar sem Ísland vænti þess að hver maður gerði skyldu sína, svo snúið sé örlítið út úr frægum ummælum Nelsons flotaforingja.

„Þetta var venjuleg sveit með kindum, svínum, hestum, hundum og ollu því. Þar gekk maður bara strax í þessi sveitastörf, það var bara það sem maður ólst upp við,“ segir Kristín frá, en foreldrar hennar, þau Gísli Jónsson frá Skeljabrekku og Oddbjörg Leifsdóttir frá Akranesi, stunduðu búskapinn ásamt föðurforeldrum hennar á bæjunum Ytri-Skeljabrekku og Mið-Fossum, en síðarnefndi bærinn er nú í eigu Landbúnaðarháskólans og er þar rekinn hestabúgarður mikill.

„Við hjálpuðumst bara að og allir höfðu hlutverk. Þegar þú varst komin/n á lappirnar hjálpaðirðu til,“ rifjar Kristín upp.

Leikskólastjórinn í Borgarbyggð á sér fortíð sem fæstir þekkja til …
Leikskólastjórinn í Borgarbyggð á sér fortíð sem fæstir þekkja til aðrir en heimamenn. Kristín hóf Húsafellshelluna á loft og fann ekki aðrar eftirstöðvar en marbletti á handleggjum daginn eftir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var mjög sterk að upplagi og þegar maður er það er hægt að nota mann, innan gæsalappa, til að vinna erfiðisverk. Þarna var verið að bera mjölpoka, moka upp úr fjárhúsunum, tína grjót í flaginu, rýja kindurnar, henda heyböggum upp á vagnana, moka í heyblásarann og öll þessi verk,“ segir Kristín af sveitastörfunum sem unnin voru á bæjum fjölskyldunnar á hennar ungdómsárum.

Hafragrautur og súrt slátur

Ekki skorti heldur eldsneytið á mannskapinn og rifjar Kristín upp hafragraut og súrt slátur í morgunverð eftir mjaltir en auk þess í önnur mál bjúgu, fisk, kótelettur, hjörtu og lifur og staðgott íslenskt sveitafæði annað. „Þarna var alltaf heitur matur í hádeginu og á kvöldin og eftir hádegismatinn lögðu allir sig í 20-30 mínútur og sofnuðu. Þannig vöknuðum við endurnærð til áframhaldandi verka,“ segir Kristín frá.

Lítið var um sælgæti á uppvaxtarárum hennar en ekki þar með sagt að ekki væri brugðið út af hversdagsleikanum til hátíðarbrigða. „Það var þegar Eurovision var, þá voru alveg heilög kvöld í sveitinni,“ rifjar hún upp af Eurovision-kvöldum, jafnvel áður en þátttaka Íslands hófst með frægum smelli í Grieg-höllinni í Bergen 3. maí 1986.

„Þá fórum við klukkutíma fyrr í fjósið til að vera búin tímanlega og svo var horft á Eurovision. Og þá keypti mamma snakk og það var alveg partý,“ segir Kristín og hlær hjartanlega. „Ég man að ég spurði mömmu oft, áður en Ísland fór að taka þátt, af hverju Ísland væri ekki með og hún svaraði alltaf: „Það er af því að við erum svo góð, Kristín, að við myndum alltaf vinna,“ og ég trúði þessu bara,“ segir leikskólastjórinn og hlær á ný.

Óx þér fiskur um hrygg af sveitastörfum einum eða varstu í íþróttum?

„Ég var mikið í fótbolta í skólanum en við systkinin vorum aldrei að æfa, það var aldrei tími til að æfa íþróttir,“ svarar Kristín, „en þegar ungmennafélagið okkar var að keppa vorum við stundum sótt systkinin og fengin til að keppa, við vorum öll svolítið öflug,“ heldur hún áfram, því síðasta skeytt við með ísmeygilegri kímni í röddinni.

Vanar að hræra í blóði

Kepptu þau systkinin í fótbolta og frjálsum íþróttum og gat Kristín sér snemma góðan orðstír í kúluvarpi og nú getur blaðamaður ekki annað en spurt út í Húsfellshelluna og þá frækilegu lyftu Kristínar vorið 1987.

Önnur gömul úr sveitinni fyrir fjörutíu árum eða svo, Kristín …
Önnur gömul úr sveitinni fyrir fjörutíu árum eða svo, Kristín í góðum félagsskap með dýrunum blessuðum. Ljósmynd/Aðsend

Ljóst er af framangreindu að konur hafa lyft hellunni og án efa fleiri en þær tvær sem hér hafa verið nefndar. Má sem dæmi nefna, þótt heimildin sé skáldskapur – sögulegur skáldskapur þó – að í Íslandsklukkunni setur Nóbelsskáldið upp þá senu er Reinarbóndinn af Akranesi, Jón Hreggviðsson, heimsækir séra Snorra á Húsafelli og þreytir aflraunir við móður prests og dóttur, en þær voru „vanar að hræra í blóði“, eins og prestur lýsti því.

Séra Snorri var við skáldskapariðju er bónda bar að garði, orti Illugarímur Gríðarfóstra á skarsúðina, og er þeir gestur hans höfðu matast bauð prestur bónda að lyfta Húsafellshellunni upp á kampsteininn. „Hnöllúng þenna nefndi klerkur hellu,“ skrifar skáldið og lýsir því svo er prestur bað móður sína hálfníræða að „halda á molanum í kríngum réttina til að sýna þessum pilti áður en hann fer að enn eru konur á Íslandi“.

Leysti móðirin verkið af hendi og þá var komið að stúlkunni ungu: „Dóttir litla. Sýndu þessum manni að enn eru úngar meyar á Íslandi og skreptu þó ekki væri nema tvær þrjár reisur með völuna kríngum stekkjarkornið.“

Var umbeðið verk leyst með sóma og kvaddi prestur bónda þá með einum fleygustu orðum íslenskra bókmennta að áliti þess er hér skrifar: „Farðu nú guði á vald í grátt brókarhald Jón Hreggviðsson frá Rein. Þér er fullrefsað á Húsafelli.“

Kristín ásamt Kristni Óskari Sigmundssyni eiginmanni sínum (annar f.v. í …
Kristín ásamt Kristni Óskari Sigmundssyni eiginmanni sínum (annar f.v. í hópnum fyrir aftan hana), börnum þeirra og tengdabörnum. Ljósmynd/Aðsend

„Jæja Kristín, nú tekur þú“

Víkur þá sögunni að Kristínu Gísladóttur rúmum 200 árum eftir að móðir og dóttir séra Snorra hófu „molann“ á loft.

„Við fórum þarna í skólaferðalag og gistum í kofum og svo var náttúrulega tölt að hellunni og strákarnir voru að prófa þetta þar til einhver segir „jæja Kristín, nú tekur þú,“ og ég bara lyfti þessu, mér fannst þetta aldrei neitt tiltökumál,“ segir hún frá og auðheyrt að viðmælandinn hefur á dauða sínum átt von frekar en því að hellulyftan í skólaferðalagi vorið 1986 yrði rifjuð upp í fjölmiðlum tæpum fjórum áratugum síðar.

„Ég man að það var haldið við hana, kennarinn gerði það, svo ég gæti lyft henni, hann hefur náttúrulega ekki viljað að ég fengi hana yfir mig. Ég lyfti henni og var ósköp ánægð með sjálfa mig en ég man að daginn eftir var ég með marbletti á handleggjunum,“ rifjar Kristín upp en segist annars hvergi hafa kennt sér meins – og alls ekki í bakinu.

„Ég hef aldrei fundið til í baki nema einu sinni eftir að ég datt af hestbaki. Við þurftum að tæma heilu bílana af áburðarpokum og mjölpokum sem voru fimmtíu kíló og þetta dunduðum við okkur bara við krakkarnir. Við vorum með mjög stórt kúabú og fengum mikið af fóðurbæti,“ segir Kristín og kveðst hafa verið kraftalega vaxin sem barn en aldrei hávaxin sérstaklega, 168 sentimetrar varð hún er upp var staðið.

Hjónin eru mikið útivistarfólk og iðin við göngur.
Hjónin eru mikið útivistarfólk og iðin við göngur. Ljósmynd/Aðsend

Hjartasjúkdómur atvinnumanna

Blaðamaður laumar því að viðmælandanum að heimur íslenskra keppniskraftlyftinga hafi misst mikið úr því leið Kristínar lá ekki þangað en hún svarar því þá til að lóðalyftingar séu í raun nánast eina íþróttin sem henni leyfist að stunda vegna sjaldgæfs hjartasjúkdóms sem hrjái hana og uppgötvaðist seint á ævi hennar.

„Ég var alltaf að hlaupa og svo loksins árið 2012 gerðist það að ég fór að hlaupa með hlaupahópi,“ segir Kristín frá. „Ég er mikið náttúrubarn og fer mikið á fjöll en ég var aldrei neitt sérstaklega góð í hlaupunum miðað við hinar. Svo ég fór að taka aukaæfingar, það er náttúrulega bara þessi þrjóska í mér. Nema hvað að svo er okkur systrum boðið að fara í heildarrannsókn í Hjartavernd, pabbi hafði verið þar töluvert,“ segir Kristín frá, en þarna fékk hún fréttir sem hana hafði ekki órað fyrir.

„Þá er ég bara stoppuð þar af, það sé eitthvað að hjartalínuritinu mínu,“ segir Borgfirðingurinn sem hóf nú þriggja ára þrautagöngu rannsókna og óvissu. „Ég var hjá hjartalæknum og hinum og þessum og greinist svo árið 2016 með hjartasjúkdóm sem heitir ARVC [arrhythmogenic right ventricular cardiomyopathy, hægri slegils hjartavöðvakvilli]. Það þýðir að hægri slegillinn minn, sem dælir súrefnisríku blóði út í líkamann er bilaður,“ útskýrir Kristín.

Ekki hlaupa og djöflast

Þetta táknar að slegillinn skilar ekki fullum afköstum og var hjartagangráður græddur í Kristínu til að ráða bót á. „Mér finnst það minnisstætt þegar ég kom til læknisins sem á endanum fann út úr þessu. Hann skildi ekkert í þessu þar sem þetta er sjúkdómur sem maður ávinnur sér með því að hlaupa og hamast á hjartanu. Hann sagði mér að þetta greindist fyrst og fremst í atvinnumönnum í fótbolta og keppnishjólreiðamönnum.

„Svona miðaldra konur eins og þú eiga ekki að greinast með þetta og af hverju varstu ekki löngu hætt?“ spurði hann. En það er nú bara þannig að ég gegnum allt mitt líf hef ég bara djöflast áfram. Þrjóskan gerði mig svona sterka,“ segir Kristín sposk.

Sem fyrr segir er hún með gangráð, „svo nú er bara lesið af mér á morgnana, hjartað má helst ekki fara upp fyrir 120 slög á mínútu, þá fer allt í vitleysu“, útskýrir Kristín og fullvissar blaðamann um að hún þurfi ekki að mæta í eigin persónu upp á Landspítala alla morgna, tækni nútímans sjái um að koma gögnum hennar þangað rafrænt.

Kristín og systkini hennar fjögur, Jón, Áslaug Ella, Leifur Welding …
Kristín og systkini hennar fjögur, Jón, Áslaug Ella, Leifur Welding og Guðfinna. Ljósmynd/Aðsend

„Nú má ég alls ekki hlaupa og ekki djöflast eins og ég hef alltaf verið að gera. Læknirinn sagði bara við mig: „Þú ert orðin miðaldra kona, þú átt bara að hætta þessu,“ og þar þurfti ég fyrir alvöru að eiga gott samtal við sjálfa mig um hvað ég ætlaði að gera við líf mitt. Þar kom aftur upp þessi gamla seigla úr sveitinni, ég ætla ekkert að gefast upp, ég ætla að lifa heilbrigðu lífi. Og það sem ég get í rauninni æft, það eru lyftingar,“ segir Kristín og á vel við miðað við upphaf ferilsins á Húsafelli á útmánuðum 1987.

Og það gerir þessi miðaldra sveitastúlka til að halda sér í formi í dag. Þó ekki með neinum djöfulgangi, 120 í púls er jú hámarkið fyrir hjartaheilsu Kristínar Gísladóttur frá Andakíl sem lyfti hellunni á sínum tíma og lyftir lóðum í dag sér til yndisauka og atgervis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert