Varðveita galdurinn sem fylgt hefur Bræðslunni

Brátt tekur gamla síldarskemman á sig nýja mynd þar sem …
Brátt tekur gamla síldarskemman á sig nýja mynd þar sem hún verður að tónlistarhúsi Bræðslunnar. Ljósmynd/Áskell heiðar Ásgeirsson

Undirbúningurinn er í fullum gangi á Borgarfirði eystri þar sem árlega tónlistarhátíðin Bræðslan fer fram um helgina. Stór hópur sjálfboðaliða leggur nú hönd á plóg við að breyta gömlu síldarskemmunni í tónleikahús á tveimur dögum.

Þetta segir Áskell Heiðar Ásgeirsson Bræðslustjóri í samtali við mbl.is.

Áskell segir undirbúninginn vera eigi síður skemmtilegan en hátíðina sjálfa, þar sem þeir sem að hátíðinni standa koma saman og hjálpast að við að gera hana sem flottasta.

„Þetta eru, persónulega hjá mér, uppáhalds dagarnir mínir. Þetta er smá eins og skóla reunion og nú er bara æðisleg stemning,“ segir Ásgeir.

Litlar breytingar en varðveita galdurinn

Spurður hvort fólk megi búast við nýrri viðbót við hátíðina í ár segir Áskell að alltaf séu einhverjar breytingar þó þær séu ekki róttækar. „Lítil tilbrigði við sama stefið. Við erum alltaf pínulítið að reyna að gera betur en í fyrra á sama tíma og við reynum að varðveita galdurinn sem hefur fylgt þessu frá upphafi,“ bætir hann við.

Hátíðin verður 20 ára á næsta ári og segir Áskell að þá verði kannski bryddað upp á einhverju nýju. Honum finnst frábært að hátíðin hafi gengið svona vel og í svona mörg ár.

Hér má sjá þá sem vinna hörðum höndum að því …
Hér má sjá þá sem vinna hörðum höndum að því að setja upp allt sem þarf fyrir Bræðsluna. Ljósmynd/Aðsend

Býst við að uppselt verði eins og síðustu 15 ár

Áskell býst við um 1.000 manns á Bræðsluna sjálfa, en segir miklu fleiri vera í firðinum yfir helgina og vænta megi jafnvel um 3.000 manns þangað.

Hann segir nokkra miða vera eftir á tónleikana og finnst allt benda til þess að uppselt verði eins og síðustu 15 ár.

Áskell segir gesti mega búast fyrst og fremst við skemmtilegri stemningu þar sem allir eru saman komnir og eitthvað verði að finna fyrir allar kynslóðir. 

„Fólk saman í skemmtilegri stemningu að hafa gaman, njóta góðrar tónlistar og eiga saman góða stund í fallegu umhverfi,“ segir Áskell og bætir við að margir góðir tónlistarmenn muni stíga á stokk og skemmta lýðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert