Andlát: Hjörtur Þórarinsson

Hjörtur Þórarinsson er látinn.
Hjörtur Þórarinsson er látinn. Ljósmynd/Aðsend

Hjörtur Þórarinsson, fyrrverandi skólastjóri og framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi 23. júlí, 97 ára að aldri, eftir skammvinn veikindi.

Hjörtur fæddist á Miðhúsum í Reykhólahreppi og ólst þar upp til 12 ára aldurs en flutti þá að Reykhólum. Hann var sonur Þórarins Árnasonar og Steinunnar Hjálmarsdóttur og var yngstur fimm barna þeirra. Eftir fráfall Þórarins giftist móðir hans Tómasi Sigurgeirssyni og eignuðust þau tvö börn. Öll systkinin eru látin.

Hjörtur naut farkennslu í sinni sveit og stundaði síðan nám við Unglingaskóla Flateyrar og Unglingaskóla Árelíusar Níelssonar. Hann lauk almennu kennara- og söngkennaranámi 1948, íþróttakennaranámi 1949 og var síðan við nám í Danmarks Lærerhöjskole 1965-66. Hjörtur kenndi við bæði grunn- og framhaldsskóla víðsvegar um landið á árunum 1949-1980. Hann var skólastjóri á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði 1961-78, framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga 1980-94 og formaður Hollvarðasamtaka skólans 2002-2019.

Hjörtur sinnti félagsstörfum og starfaði m.a með Frímúrarareglunni og var meðlimur í tveimur Kiwanisfélögum. Hann starfaði lengi með Félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra og var formaður Félags eldri borgara á Selfossi frá 1999-2013. Hjörtur var tónlistarunnandi og söng nær óslitið í kórum frá 14 ára aldri. Hann var mikill hagyrðingur og gaf út nokkur lausavísusöfn ásamt tveimur nótnaheftum.

Eiginkona Hjartar var Ólöf Sigurðardóttir hússtjórnarkennari. Seinni kona hans var Bryndís Steinþórsdóttir hússtjórnarkennari. Dóttir Hjartar og Ólafar er Sigrún Hjartardóttir, gift Birni Geir Leifssyni. Börn þeirra eru þrjú og langafabörn Hjartar eru fjögur.

Útför Hjartar fer fram frá Grafarvogskirkju 9. ágúst kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert