Bauð stúlku súkkulaði og fitlaði við sig

Eitt atvikið átti sér stað við Langholtskirkju fyrr í kvöld.
Eitt atvikið átti sér stað við Langholtskirkju fyrr í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íbúi í Langholtshverfi Reykjavíkur varaði nágranna sína við manni sem reyndi að ná tali af dóttur hennar á meðan hann þuklaði á kynfærum sínum í bifreið sinni nú undir kvöld. Setti konan færslu inn á Facebook hóp Langholtshverfis þar sem hún lýsir atvikinu og af athugasemdum af dæma hafa aðrir orðið mannsins vart.

Feitlaginn með skegg og á rauðum jeppling

Segir íbúinn að maðurinn ekið á rauðum jeppling og stoppað dóttur sína í Sólheimum við Langholtskirkju og spurt hana hvað klukkan væri. Hafi hann síðan boðið henni súkkulaði sem hún afþakkaði. Kvaðst maðurinn þá ekki hafa heyrt í henni og bað dótturina að koma nær.

Er hún nálgaðist bílinn hafi hún þá séð hvernig maðurinn var með aðra hönd sína innanundir buxum sínum og að þukla á sjálfum sér og hafi þá dóttirin hraðað sér heim.

Segir móðirin dótturina 18 ára gamla og hvetur hverfisbúa til að vara börn sín og unglinga við manninum. Lýsir hún manninum sem feitlögnum, með skegg og líklega af rómönskum ættum.

Annað atvik á svipuðum tíma

mbl.is náði tali af öðrum íbúa hverfisins sem sagði tvítuga dóttur sína einnig hafa orðið mannsins vart. Segir íbúinn að dótturinni hafi verið brugðið og ekki vitað hvað maðurinn ætlaði sér.

„Við dóttur mína þá segir hann ekki neitt, en hægir á sér, skrúfar niður rúðuna og geiflar sig eitthvað framan í hana með tungunni“, segir íbúinn og bætir við.

„Henni fannst hann gera sig líklegan til þess að fara út úr bílnum en hann gerir svo ekkert. Þá var hann stopp sem sagt og svo verður ekkert meira. Hún er bara að labba á milli húsa.“

Atvikið sem um þar ræðir gerðist einnig fyrr í kvöld og í Álfheimum. Ljóst er að atvikin áttu sér stað á svipuðum tíma og upplýsir íbúinn í samtali við mbl.is að bæði atvikin hafi verið tilkynnt til lögreglu.

Ekki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert