Brýnt að Alþingi sé upplýst

Bjarni Jónsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
Bjarni Jónsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. mbl.is/Sigurður Bogi

Bjarni Jónsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, segir að ekki eigi að breyta veigamiklum verkefnum í samgönguáætlun án aðkomu þingsins.

Fjárheimildir og framkvæmdir þurfi að fara saman. Þegar ljóst sé að áætlanir sem Vegagerðin geri standist ekki, þá sé mikilvægt að Alþingi sé upplýst þannig að hægt sé að taka ákvarðanir um hvernig eigi að bregðast við.

Vitnar Bjarni í framkvæmdir við Horn­a­fjarðarfljót en áætlaður kostnaður er nú um níu milljarðar króna. Í samgönguáætlun 2020 var lagt til að hálfur milljarður yrði settur í verkið af hálfu ríkisins.

Bjarni segir að ákvarðanir um að verja fleiri milljörðum til viðbótar í verkefnið, vegna brostinna áætlana og forsendubrests, hafi ekki komið til kasta Alþingis. Hann segir mörg önnur samþykkt samgönguverk­efni ekki hafa farið af stað, vegna kostnaðarhækkana og yfirkeyrslu í þessu verkefni.

Kemur niður á öðrum verkefnum

„Þegar fleiri milljarðar eru færðir til á milli verkefna til þess að halda verkefni eins og þessu gangandi, þá hlýtur það að koma niður á öðrum verkefnum. Ef taka á slíkar ákvarðanir er eðlilegt að það sé Alþingi og löggjafinn sem taki þær en þær séu ekki í höndum embættismanna,“ segir Bjarni.

„Það þarf að taka þessi mál miklu traustari tökum,“ segir Bjarni. Halda þurfi betur utan um alla fjárhagslega umgjörð og eftirlit með verkefnum.

Bjarni segir það algjörar rang­færslur að frestun samgönguáætlunar á Alþingi hafi áhrif á framkvæmdir sem séu á dagskrá á þessu ári.

„Það er alveg skýrt að frestun samgönguáætlunar til hausts á ekki að hafa nein áhrif á framkvæmdir þessa árs. Núverandi áætlun er enn í gildi. Ef ekki er verið að fylgja eftir útboðum á einstökum verkefnum eða undirbúningi þeirra, þá er það vegna þess að fjármuni skortir eða þeir hafa verið settir í önnur verkefni.“

Vonast Bjarni til þess að aukið fjármagn verði veitt í vegamál í samgönguáætlun sem verður tekin fyrir á Alþingi í haust. Það sé ekki síst vegna viðhaldsþarfar á vegakerfinu en þörf sé á sérstöku átaki í þeim efnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert