Dæmi um tugprósenta hækkun á matvöru

Hækkarnir eru mestar í verslunum Samkaupa.
Hækkarnir eru mestar í verslunum Samkaupa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verðlag á matvöru hefur hækkað um 0,65% á milli mánaða, eða 9,2% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjustu mælingum verðlagseftirlits ASÍ. Dæmi eru um tugprósenta hækkanir og var mesta hækkunin á sellerí í Krónunni um 54%. Þá hafa sælgætisfyrirtæki undanfarið hækkað verð hjá sér.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá ASÍ.

Hagstofa Íslands greindi frá því á þriðjudaginn að tólf mánaða verðbólga hefði aukist um 0,46 prósentustig frá júní og mælist nú 6,3%. Áður mældist hún 5,8%.

Mesta hækkun í verslunum Samkaupa

Hækkanirnar eru mestar í verslunum Samkaupa, þá Kjörbúðinni, Nettó og Krambúðinni.

Heimkaup er eina verslunin þar sem verðlag hefur lækkað. Aðrar verslanir eru á svipuðu róli og í fyrri mánuðum.


Hækkanir víða

Hækkanir mánaðarins ná yfir marga vöruflokka. Í fyrri mánuðum hefur súkkulaði hækkað sérlega mikið. Til að mynda höfðu Nóa Síríus og Góa-Linda hækkað verð sín og hafa nú vörur frá Freyju einnig hækkað á milli mánaða.

Hækkunin er einnig komin í aðalréttinn, ferskvörur, niðursoðið grænmeti og því um líkt. Til dæmis:

  • Bonduelle grænar baunir hafa hækkað um 30% í Nettó, úr 299 í 389kr. Þær hækka um 20% í Krónunni. Bonduelle smágulrætur hækka um 29% og belgbaunir um 20% í Nettó.
  • Ora grænar baunir hækka um 12% í Nettó en um 2,6% í Bónus og Krónunni. Frá maí hafa Ora sneiddir sveppir í dós hækkað um 12% í Nettó, 14% í Krambúðinni og 20% í Kjörbúðinni.
  • Sellerí hækkar um 54% í Krónunni, 23% í Hagkaup og 9,1% í Nettó.
  • Bökunarkartöflur hækka um 20% í Krónunni.
  • Pfanner ACE safi hækkar um 33-35% í Kjörbúðinni, Krambúðinni og Nettó, 4,2% í Bónus og 3,6% í Hagkaup.

Frá undirritun kjarasamninga

Verðlag í matvöruverslunum hefur hækkað um 1,45% frá undirritun kjarasamninga, sem jafngildir 4,0% á ársgrundvelli. 

Um helmingur hækkunarinnar hefur orðið á undanförnum vikum og skorðast kippurinn að miklu leyti við verslanir Samkaupa. Þegar stærstu fjórar verslanir landsins eru skoðaðar sést að hækkunartaktur verðlags í Bónus, Krónunni og Hagkaup hefur verið á bilinu 0-0,6% á mánuði, og sama gilti um Nettó þar til nú.

Þegar fleiri verslanir eru skoðaðar má sjá eftirfarandi mynstur; verðlag í Nettó, Kjörbúðinni og Krambúðinni hefur hækkað hraðast undanfarnar vikur, en það hefur lækkað í Heimkaupum. Aðrar búðir eru á svipuðu róli og undanfarna mánuði.

Á grafinu eru verslanir Samkaupa merktar með bláu, Heimkaup með rauðu og aðrar með svörtu.

Um könnunina

Verðlagsbreytingar eru reiknaðar með vigtun vöruflokka og verslana. Þegar talað er um breytingu á verðlagi er um að ræða veginn útreikning, en breyting á verði merkir stakan samanburð eða óvegið meðaltal.

Við verðsamanburð eru skoðuð meðalverð sérhverrar vöru yfir mánuðinn (eða 6-13. mars þegar borið er saman við undirritun kjarasamninga) og borin saman við meðalverð mánaðarins á undan. Breytingar eru svo vegnar útfrá mikilvægi vöruflokka. Fjöldi samanburða í hverjum mánuði er um eða yfir 20.000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert