Heilsugæslan Urðarhvarfi mun opna fyrir heimavitjanir á Akureyri með vitjanabíl læknis sem afhentur verður í ágúst. Eru þetta viðbrögð Heilsugæslunnar við kröfu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) að tveir fyrrum heimilislæknar bæjarfélagsins myndu einungis hafa aðsetur hjá heilsugæslunni í Urðarhvarfi í Kópavogi en þar gátu þeir aðeins sinnt skjólstæðingum sínum fyrir norðan með rafrænum hætti eða símleiðis.
Kemur þetta fram í nýrri færslu Heilsuverndar á Facebook.
Málið varðar undirskriftalista sem stofnaður var í júní þar sem þar sem skorað var á SÍ að semja um læknisþjónustu á Akureyri við heimilislæknana Guðrúnu Dóru Clarke og Val Helga Kristinsson.
Hefur mbl.is greint frá því að Valur Helgi og Guðrún Dóra störfuðu lengi á heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Akureyri. Þau réðu sig svo fyrir nokkrum mánuðum til starfa hjá heilsugæslunni í Urðarhvarfi í Kópavogi en höfðu aðstöðu á Læknastofum Akureyrar.
Aðstöðu þeirra á læknastofunum var ætluð til að koma til móts við þarfir skráðra skjólstæðinga heilsugæslunnar, sem búa á Akureyri og vilja hitta heimilislækni sinn.
SÍ kröfðust þess í febrúar að læknarnir tveir hefðu eingöngu aðsetur á Urðarhvarfi og var því starfsemin á Akureyri stöðvuð tímabundið en fram kemur í færslu Heilsuverndar að skjólstæðingar þeirra á Akureyri hafi verið um 1000 einstaklingar.
Í færslu Heilsuverndar á Facebook segir að að Heilsugæslan Urðarhvarfi hafi unnið markvisst að því að geta veitt þjónustu heimilislækna á Akureyri. Hafi Valur Helgi og Guðrún Dóra sinnt skjólstæðingum sínum á Akureyri með rafrænum hætti og í gegnum síma.
Á undirskriftalistanum sem stofnaður var í júní eru nú ríflega 800 rafrænar undirskriftir og segir Heilsuvernd að gera megi ráð við fyrir að hátt í 3-4000. einstaklingar séu tilbúnir til að fylgja sínum læknum.
„Við höfum ítrekað bent á það að skráning á heilsugæslu er frjáls og heilsugæslum er almennt ekki heimilt að meina skjólstæðingum um skráningu né afskrá þá. Þess vegna munum við áfram leita leiða til að sinna okkar skjólstæðingum og stefnum ótrauð að því að það verði einnig mögulegt á stofu á Akureyri innan tíðar,“ segir í færslu Heilsuverndar.
Fréttin hefur verið uppfærð. Fyrst var greint frá því að Læknastofur Akureyrar heyrðu undir Heilsuvernd. Hið rétta er að Heilsuvernd hefur verið með aðstöðu þar á leigu fyrir lækna.