Finna fyrir auknu mótlæti í ár

Druslugangan verður gengin í tólfta sinn á laugardag.
Druslugangan verður gengin í tólfta sinn á laugardag. mbl.is/Hari

Druslugangan verður haldin í tólfta sinn á morgun. Gengið verður frá Hallgrímskirkju klukkan tvö niður Skólavörðustíg og Bankastræti og lýkur göngunni við Austurvöll með samstöðufundi, ræðuhöldum og lifandi tónlist.

Skipuleggjendur hátíðarinnar segjast spenntir fyrir deginum en finna þó fyrir ákveðnu bakslagi í samfélaginu þegar það kemur að jafnréttismálum. 

„Við erum að einblína á kjarna druslugöngunnar í ár, sérstaklega þar sem við höfum fundið fyrir einhverri mótstöðu í ár. Það er kannski í minna í tísku að styðja þolendur kynferðisofbeldis og þá er aldrei jafn mikilvægt að ganga og sýna samstöðu,“ segir Lísa Margrét Gunnarsdóttir, ein af skipuleggjendum göngunnar í samtali við mbl.is.

Spurð hvernig þessi mótstaða lýsi sér segir Lísa Margrét að skipuleggjendur göngunnar hafi í fyrsta skipti upplifað það að neikvæðar athugasemdir birtist við hverja umfjöllun sem snýr að göngunni. 

Þá finna þau ekki aðeins fyrir bakslagi í netheimum heldur einnig í raunheimum. Hún nefnir að fyrr í vikunni hafi þau verið að kynna viðburði Druslugöngunnar í Kringlunni og þar hafi fólk veist af þeim með allskyns neikvæðar athugasemdir. 

„Við höfum mikið rætt það okkar á milli að þetta haldist í hendur við aukna fordóma í samfélaginu. Hinsegin samfélagið hefur talað mikið um bakslag í þeirra baráttu og á eftir því kemur kvenfyrirlitning,“ segir Lísa. 

Lísa Margrét Gunnarsdóttir, ein af skipuleggjendum Druslugöngunnar.
Lísa Margrét Gunnarsdóttir, ein af skipuleggjendum Druslugöngunnar. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er Druslugangan og afhverju þetta nafn?

„Druslugangan er jafnréttisganga sem gengin hefur verið á hverju ári síðan árið 2011 (að Covid undanskildu). Með því að koma saman, öskra og ganga sýnum við samstöðu okkar með þolendum kynferðisofbeldis í verki og skilum skömminni sem hefði aldrei átt að vera okkar,“ segir í tilkynningu frá Druslugöngunni. 

Lísa segir að nafn göngunnar stuði fólk og útskýrir svo uppruna þess:

„Gangan byrjar með ummælum lögreglumanns í Toronto árið 2011 þar sem hann segir að konur ættu ekki að klæða sig eins og druslur, annars yrði þeim nauðgað. Þetta vakti mikla athygli og fólki fannst þetta endurspegla nauðgunarmenningu. Við höfum haldið í þetta nafn síðan,“ segir Lísa. 

Hún segir að með því að kalla gönguna „druslugönguna“ sé verið að taka til baka orðið drusla sem sé notað í neikvæðri merkingu. 

„Þegar fólk er smættað fyrir að hafa orðið fyrir ofbeldi eða það er kallað drusla fyrir klæðaburð sinn og hafi þá á einhvern hátt verðskuldað ofbeldið sem það hefur orðið fyrir. Þá erum við að reyna taka nafnið drusla til baka og brennimerkja okkur öll sem druslur,“ segir Lísa. 

Almennt góð stemning 

Lísa segir að þrátt fyrir að þau finni fyrir auknu mótlæti í ár sé almennt góð stemning fyrir göngunni. Þá segir hún að skipuleggjendur eigi að þessu sinni von á um það bil þúsund manns en það muni líklegast ráðast af veðrinu. 

„Við erum smá stressuð yfir veðurspánni, en við búumst við í kringum þúsund manns. Ég vil bara hvetja fólk til að mæta sama hvort það rigni eða ekki. Það er svo mikilvægt að mæta og sýna samstöðu sérstaklega þegar maður finnur fyrir bakslagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert