Frá Malaví til Íslands á Rey Cup

Rey Cup fer fram um helgina og krakkar á aldrinum …
Rey Cup fer fram um helgina og krakkar á aldrinum 14-16 ára sem taka þátt á mótinu. Ljósmynd/Aðsend

Á dögunum lentu ellefu ungar og efnilegar knattspyrnukonur frá Malaví á Keflavíkurflugvelli. Þær eru komnar hingað til lands til þess að taka þátt á Rey Cup knattspyrnumótinu sem fer fram um helgina. 

Þetta er í fyrsta skipti sem kvennalið frá Malaví kemur til Evrópu til þess að taka þátt á knattspyrnumóti, segir Jóhann Bragi Fjalldal, tengiliður við liðið. Malaví er eitt fátækasta ríki heims og ólust margar stúlknanna upp við mikla fátækt. 

Stelpurnar spila með knattspyrnuakademíunni Ascent Soccer sem er eina knattspyrnuakademían í Malaví. Þar æfa drengir og stúlkur sem þjálfarar akademíunnar hafa séð spila, en þeir heimsækja þorp þar í landi í leit að ungu og efnilegu knattspyrnufólki.

Markmiðið með akademíunni einskorðast ekki aðeins við knattspyrnu heldur gengur hún út á það að bjóða börnum upp á fleiri og betri tækifæri í lífinu. 

Stelpurnar skoða sig um miðbæinn.
Stelpurnar skoða sig um miðbæinn. Ljósmynd/Aðsend

Ekki í fyrsta skiptið

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að lið frá Malaví keppir á Rey Cup en í fyrra komu hingað 16 drengir til landsins til að taka þátt á mótinu. Þeir gerðu lítið fyrir sér og urðu Rey Cup-meistarar í þriðja flokki karla.

Sex af þeim drengjum komu aftur á mótið í ár og voru mjög spenntir að koma aftur til Íslands.

Jóhann segir að það hafi alltaf verið draumur að koma með stúlknalið á mótið en aðstæður í heimalandinu séu þannig að það er erfitt að koma saman heilu stúlkna fótboltaliði. 

„Stelpur hafa takmörkuð tækifæri í þessu landi, þeim er haldið svolítið niðri [...]. Það er erfitt að finna stelpur í landinu sem spila fótbolta, það er bara ekki í þeirra menningarheimi. Þær eiga frekar að vera heima að hjálpa til. Þá eru barnahjónabönd einnig stórt vandamál og stelpur eru oft gefnar mönnum þrátt fyrir ungan aldur.“

Erfitt að venjast kuldanum

Það getur verið kostnaðarsamt að koma heilu fótboltaliði frá Malaví til Íslands en íslenskir styrktaraðilar hafa lagt málstaðnum lið og segir Jóhann að slíkir styrkir geti skipt sköpum. Á meðal styrktaraðila eru utanríkisráðuneytið, Íslandsbanki, Advania og Sjóvá. 

Að sögn Jóhanns líkar stúlkunum vel við landið en þær ætla meðal annars í hvalaskoðun á meðan dvöl þeirra stendur. Þær eiga hins vegar erfitt með að venjast kuldanum á Íslandi enda veðurfarið gjörólíkt því sem þær þekkja heimafyrir. 

Fótboltavellirnir hér á Íslandi eru líka mjög ólíkir þeim í Malaví og segir Jóhann að stúlkurnar séu margar hverjar vanar að spila á moldarvöllum eða á hörðu gervigrasi. 

„Það að boltinn skoppi tilbaka þegar þær sparka honum er eitthvað sem margar þeirra hafa ekki séð áður,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert