Halla fær rafbíl á sérdíl

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, og Björn Skúlason, verðandi forsetaherra, …
Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, og Björn Skúlason, verðandi forsetaherra, ásamt Agli Jóhannssyni, forstjóra Brimborgar. Ljósmynd/Brimborg

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, hefur fengið keyptan rafbíl á sérkjörum frá Brimborg. Bílaumboðið auglýsir kaupin með mynd á Facebook af Höllu og eiginmanni hennar, Birni Skúlasyni, þar sem þau taka á móti bílnum.

Forstjóri bílaumboðsins þvertekur fyrir það í samtali við mbl.is að sérkjörin hafi nokkuð með í embætti hennar að gera. Um er að ræða persónuleg kaup hjónanna, en ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

„Það er okkur hjá Brimborg ákaflega mikill heiður að þau hjónin velji rafmagnsbíl frá Volvo,“ segir í færslunni, þar sem hjónunum er hrósað fyrir að velja rafbíl og keyra um á endurnýjanlegri íslenskri raforku.

Þá er einnig tekið fram að bíllinn sé sá minnsti í Volvo-fjölskyldunni. Á vef Brimborgar kemur fram að þessi tiltekna bílategund kosti um sjö milljónir króna með rafbílastyrk.

„Ákveðin kjör fyrir þannig fólk“

Aðspurður tekur Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, fyrir það forsetinn verðandi hafi fengið bílinn á sérkjörum.

„Þetta er bara það sem viðgengst hjá þeim sem hafa verið í tengslum við okkur lengi,“ segir Egill við mbl.is.

Hvað felst í svona kjörum?

„Við gefum ekkert upp kjör hjá einstökum viðskiptavinum,“ svarar forstjórinn.

Hefur þetta ekkert að gera með að hún sé að verða forseti Íslands?

„Nei. Við þekkjum þau, erum búin að þekkja þau lengi og bjóðum fólki sem hefur verið lengi í viðskiptum við okkur – og starfsmenn þekkja – þá erum við með ákveðin kjör fyrir þannig fólk.“

Þekkirðu Höllu og Björn persónulega?

„Já, ég hef svona þekkt þau í mörg ár, en bara sem kunningjar,“ svarar hann. „Ætli ég hafi ekki fyrst kynnst henni þegar hún var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á sínum tíma [2005-2007]. Svo höfum við bara þekkst svona í gegnum árin.“

Ekki ólíklegt að sendiherrar fái bíl á sérkjörum

Þetta er aðeins í annað skiptið á árinu sem Brimborg hefur auglýst slík kaup, ef marka má Facebook-síðu umboðsins. Í febrúar birti fyrirtækið tilkynningu um að franska sendiráðið hefði keypt franska lúxusrafbíllinn Citroën Ë-C4 X.

Egill segir ekki ólíklegt að kaup sendiráðsins hafi verið á sérkjörum, en viðurkennir að hann sé ekki handviss.

Franski sendiherrann Guillaume Bazard tók við lyklunum hjá Citroën á …
Franski sendiherrann Guillaume Bazard tók við lyklunum hjá Citroën á Ísland að nýjum sendiráðsbíl í Brimborg í febrúar. Fyrir valinu varð franski lúxusrafbíllinn Citroën Ë-C4 X. Ljósmynd/Brimborg

„Ég þori nú ekki að segja til um það en það er ekkert ólíklegt að það séu sérstök kjör fyrir sendiráðin,“ segir hann.

„Þetta er í raun bara eins og í öðrum viðskiptum. Einhverjir sem við erum búin að vera í tengslum við lengi eru að kaupa kannski aftur og aftur, kaupa eða leigja,“ svarar hann og tekur fram að þeir sem kaupi oft vinnu- eða vörubíla fái gjarnan sérkjör. Þá megi einnig ættingjar starfsmanna fá ákveðin sérkjör.

„Og síðan geta verið svona tengsl eins og sendiráð eða eitthvað þess háttar.“

„Svona er bissness“

„Svo fer þetta líka eftir markaðsaðstæðum á þessum tíma,“ segir Egill og á þar við verðið á bílnum. Tekur hann fram að bílamarkaðurinn sé í ákveðinni lægð þannig að almennt séu betri kjör í boði.

Þá hafi Brimborg einnig nýlega fengið verðlækkun frá Volvo á þessum tiltekna rafbíl sem Halla kaupir. 

„Þetta er bara svona. Svona er bissness. Bílabransinn er sennilega sá bransi sem mest samkeppni er í á Íslandi. Það eru margir keppinautar,“ bætir Egill við. 

„En eins og þessi bíll, hann er nýbúinn að fá verðlækkun frá Volvo og fær orkusjóðsstyrk þar sem hann er á mjög góður verði, undir tíu milljónum,“ segir hann og tekur fram að lokum að um persónuleg kaup hafi verið að ræða.

Ekki náðst í verðandi forseta

Ekki náðist í Höllu Tómasdóttur við vinnslu fréttarinnar.

Raunar hefur ekki náðst í Höllu frá því degi eftir að hún hlaut kjör til embættis forseta Íslands.

Hún veitti sjónvarpsstöðinni CNN þó viðtal fyrr í júlí.

Uppfært: Brimborg hefur nú eytt færslunni. Stjórnsýslufræðingur segir tilvonandi forseta á „hálum ís“ að taka þátt í aug­lýs­ingu fyrir bílaumboðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka