Halla komin „á hálan ís“ í auglýsingu Brimborgar

Halla keypt­ raf­bíl á sér­kjör­um frá Brimborg. Bílaum­boðið auglýs­ir kaup­in …
Halla keypt­ raf­bíl á sér­kjör­um frá Brimborg. Bílaum­boðið auglýs­ir kaup­in með mynd á Face­book af Höllu og eiginmanni henn­ar, Birni Skúla­syni, þar sem þau taka á móti bíln­um. Ljósmynd/Brimborg

Halla Tómasdóttir, tilvonandi forseti lýðveldisins, er á „hálum ís“ eftir að hafa látið mynda sig í auglýsingu fyrir bílaumboðið Brimborg þegar hún keypti rafbíl á sérverði, að mati stjórnsýslufræðings. Engar siðareglur gilda um embætti forseta þrátt fyrir tilraunir þingmanna fyrir áratug.

Halla keypt­i Volvo-raf­bíl frá Brim­borg á dögunum og bílaum­boðið aug­lýs­ti kaup­in með mynd á Face­book af forsetahjónunum. Færslunni hefur núna verið eytt.

Fékk hún þar sérkjör þar sem hún hefur verið „lengi í viðskipt­um við okk­ur“ að sögn forstjóra Brimborgar, sem neitar að sérdíllinn hafi nokkuð með embættissetu hennar að gera.

Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir hugsanlegt að auglýsingin og sérkaupin gætu rýrt traust almennings gagnvart forsetaembættinu.

„Þótt ég þekki ekki nákvæmlega hvaða reglur gætu gilt um þetta tel ég að almennar viðmiðanir í æðstu stjórnsýslu séu að taka ekki þátt í auglýsingu fyrir aðila á markaði,“ segir Haukur í samtali við mbl.is.

„Það kemur auðvitað fyrir að æðstu embættismenn eru að láta mynda sig með góðgerðar- og menningarfélögum. En ekki aðilum á markaði.“

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur.
Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Getur rýrt tiltrú almennings á forsetaembættinu

Haukur nefnir að miða ætti við siðferðisviðmiðanir GRECO, Sam­taka ríkja inn­an Evrópuráðsins gegn spill­ingu. Hann segir þær heita „siðferðisviðmiðanir tímans“ og byggja þær í raun á áliti almennings. Hann útskýrir:

„Það þýðir sem sagt: Hneykslast almenningur eða ekki? Er almenningi misboðið að forseti geti gengið inn í búð og keypt á öðru verði en hann. Það er mjög hugsanlegt.“

„Ef þetta brýtur á siðferðisviðmiðmun tímans rýrir þetta tiltrú almennings á forsetaembættinu. Og það er náttúrulega ein helsta ábyrgðarskylda verðandi forseta að sjá til þess að tiltrú og traust á forsetaembættinu rýrni ekki.“

Enn ekki tekin við sem forseti

En Halla er vissulega enn ekki tekin við sem forseti. Skiptir þetta þá einhverju máli? Haukur segir já.

„Fyrst hún var kjörin fyrir tveimur mánuðum – enda þótt hún hafi ekki tekið til starfa – þá er hún komin á hálan ís að taka þátt í auglýsingu. Þjóðin er búin að kjósa hana og bíður eftir því að hún taki við embætti eftir fimm daga.“

Stjórnsýslufræðingurinn bendir á að forseti þurfi að vanda sig, jafnvel þó hann hafi enn ekki formlega tekið við embættinu.

„Forseti er fulltrúi þjóðarinnar. Við þurfum öll að upplifa hana sem okkar stjórnvald. Það skiptir mjög miklu máli að hún vandi sig í sínu lífi.“

Engar siðareglur um forsetaembættið

Þegar blaðamaður leitaði til forsetaembættisins til að grennslast eftir því hvort einhverjar tilteknar siðareglur giltu um embættið fengust þau svör að ekkert slíkt væri til. 

Ættum við að setja forsetanum slíkar siðferðisreglur? „Ekkert endilega,“ svarar Haukur. 

„Það hafa verið settar siðareglur um ráðherra og Alþingismenn, sem eru nú beinir fulltrúar þjóðarinnar. Síðan gilda fullt af reglum um embættismenn framkvæmdavaldsins,“ útskýrir hann. „Og við getum sagt til dæmis að stjórnarskráin um embætti forseta sé mjög þögul um margt. Hver og einn forseti getur mótað embættið á sínum forsendum.“

Það mætti því hugsa sér að forseti búi þegar við einhverjar siðareglur „þótt það væri alveg eðlilegt að setja siðareglur á almennum forsendum,“ segir Haukur.

En hann jafnvel þótt slíkar siðareglur séu ekki skriflegar telur Haukur þær í raun og veru til sem óskrifaða meginreglu sem gilda um æðstu stjórnsýslu landsins.

„Það er að fyrirbyggja hagsmunaárekstra, að miða við siðferðisvitund fólksins í landinu þannig að það missi ekki tiltrúna á embættið og það er að bera ábyrgð á mannorði embættisins.“

Fyrrverandi forseti íhugaði siðareglur

Árið 2012 lögðu sjö þingmenn úr stjórnarflokkum fram þingsályktunartillögu um að fela forsætisráðherra að undirbúa setningu siðareglna fyr­ir forsetaembættið í samvinnu við embætti forseta Íslands.

Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, sagði á borgarafundi í Iðnó að embættið hefði skoðað rækilega að setja for­seta siðareglur. Aftur á móti fynnd­ist enginn þjóðhöfðingi sem hefði sett sér slíkar reglur, og raunar væri stjórnarskráin siðaregla forseta Íslands. 

Núverandi ríkisstjórn hefur reyndar sett sér siðareglur. Ríkisstjórnin samþykkti þann 23. apríl 2024 siðareglur ráðherra. Þar er t.d. kveðið á um að ráðherra notfæri sér ekki stöðu sína „í eiginhagsmunaskyni eða í þágu hagsmuna tengdra aðila“.

Fjölmiðlum hefur gengið illa að ná tali af Höllu Tóm­as­dótt­ur. Raun­ar hef­ur ekki náðst í Höllu frá því degi eft­ir að hún hlaut kjör til embætt­is for­seta Íslands. Hún veitti sjón­varps­stöðinni CNN þó viðtal fyrr í júlí.

Myndinni af forsetahjónunum fylgdi þessi texti. Færslunni hefur nú verið …
Myndinni af forsetahjónunum fylgdi þessi texti. Færslunni hefur nú verið eytt. Skjáskot/Facebook
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert