Halla sendir frá sér yfirlýsingu vegna bílakaupa

Halla Tómasdóttir, hefur sent frá sér yfirlýsingu.
Halla Tómasdóttir, hefur sent frá sér yfirlýsingu. Eggert Jóhannesson

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti lýðveldisins, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hún segir að hún hafi ekki óskað sérkjara við kaup á bifreið frá Brimborg. Þá segir hún að auglýsing sem birt var á samfélagsmiðlum Brimborgar hafi verið birt án hennar vitundar. 

Halla segir að henni hafi boðist staðgreiðsluafsláttur og því hafi ekki verið um sérkjör að ræða. 

Þá segir Halla að mynd sem birtist af henni og Birni Skúlasyni, eiginmanni hennar, á samfélagsmiðlasíðu Brimborgar í auglýsingaskyni hafi verið tekin út að ósk hennar.  

Yfirlýsing Höllu í heild sinni 

„Af virðingu við sitjandi forseta tók ég þá ákvörðun að veita ekki frekari viðtöl að loknum kosningum fyrr en eftir embættistöku, enda hef ég ekki tekið við embætti forseta ennþá og kem ekki fram í krafti þess.

Ég vona að því sé sýndur skilningur. Við hjónin ákváðum að kaupa okkur bíl til eigin afnota og í amstri dagsins sá ég ekki fyrr en nú síðdegis að þau bílakaup eru orðin fréttaefni. Ég fagna því að fólk viti að við völdum að kaupa umhverfisvænan bíl, vonandi getum við verið öðrum góð fyrirmynd þar.

Hinsvegar var það ekki ætlun okkar að þau bílakaup yrðu opinber og var ljósmyndin birt á samfélagsmiðlum án okkar vitundar. Við báðum vinsamlegast um að myndin yrðir fjarlægð um leið og við fréttum af því og var samstundis orðið við þeirri beiðni.

Þá vil ég ítreka að við hjónin fórum ekki fram á nein sérkjör, en okkur bauðst staðgreiðsluafsláttur sambærilegan þeim sem við fengum síðast þegar við áttum viðskipti við sama fyrirtæki og öðrum viðskiptavinum býðst einnig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert