Horfa nú til næstu tveggja vikna

Hraun frá síðasta eldgosi við Sundhnúkagíga.
Hraun frá síðasta eldgosi við Sundhnúkagíga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öflugt kvikuhlaup úr Svartsengi gæti leitt af sér kvikugang suður fyrir Hagafell, sem líklega mun valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík jafnvel þó ekki verði eldgos.

Líkur eru nú á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum.

Við þessu varar Veðurstofan í nýrri tilkynningu.

„Mesta tjón á innviðum og eignum í Grindavík er einmitt vegna sprunguhreyfinga í atburðunum 10. nóvember 2023 og 14. janúar 202,“ er haft eftir Benedikt Gunnari Ófeigssyni, fagstjóra aflögunarmælinga, í tilkynningunni.

Verðum að reikna með kvikuhlaupi

„Í þau sjö skipti sem kvika hefur hlaupið úr Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina höfum við fimm sinnum fengið eldgos. Við verðum því að reikna með þeim möguleika að fá kvikuhlaup án þess að til eldgoss komi,“ segir Benedikt.

Nýjustu GPS-gögn og gervitunglamyndir staðfesta að landris og kvikusöfnun heldur áfram á nokkuð jöfnum hraða ef horft er til síðustu vikna.

Ef hraðinn helst óbreyttur má gera ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofu.

Þrjátíu nú en voru fimmtíu daglega

„Skjálftavirknin síðustu daga hefur aukist lítillega en er enn frekar lítil. Rúmlega 30 skjálftar hafa mælst í grennd við kvikuganginn í Sundhnúkagígaröðinni síðastliðinn sólarhring og tæplega 130 síðastliðna viku,“ segir þar einnig.

„Flestir þeirra eru undir einum að stærð og eru á svipuðum slóðum og í fyrri atburðum. Til samanburðar mældust að öllu jöfnu rúmlega 50 skjálftar daglega í aðdraganda síðasta goss.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert