Kennir að vera Íslendingur í þúsundasta skipti

Bjarni telur að nafnið á sýningunni hafi spilað lykilhlutverk í …
Bjarni telur að nafnið á sýningunni hafi spilað lykilhlutverk í að vekja athygli. mbl.is/Arnþór

Sýningin „How to Become Icelandic in 60 Minutes“, sköpunarverk Bjarna Hauks Þórssonar, hefur heillað og frætt ferðamenn og Íslendinga í tólf ár og mun á laugardaginn fagna sinni þúsundustu sýningu í Hörpu.

Það var árið 2011, þegar Bjarni Haukur var í MBA-námi í Háskólanum í Reykjavík, að hugmyndin að sýningunni fæddist. „Ég var að vinna í einhverju verkefni þar og fékk hugmyndina,“ rifjar Bjarni upp. „Þannig fór boltinn að rúlla og fór svo og talaði við fólkið sem var að byggja Hörpuna, hún náttúrulega var tekin í notkun árinu áður.“

Hann sá fyrir sér sýningu á ensku sem myndi höfða til erlendra ferðamanna og Harpa, nýtt menningarhús Íslendinga, var hinn fullkomni vettvangur.

Nafnið vakti áhuga

Fyrsta sýningin var haldin 26. maí 2012 og þó að verkefnið hafi upphaflega verið tilraun, sýndi það strax merki um mikla velgengni. „Það var alveg ljóst að strax frá byrjun þá var áhugi fyrir þessu“ segir Bjarni.

Hann telur að nafnið á sýningunni hafi spilað lykilhlutverk í að vekja athygli. Staðsetningin í Hörpu, þar sem mikið af útlendingum heimsækja, gerði það að verkum að sýningin varð fljótt vinsæl meðal ferðamanna.

Hún hefur einnig hlotið mikla athygli í erlendum fjölmiðlum, sem hefur stuðlað að velgengni hennar. „Sýningin hefur fengið mjög góð viðbrögð, um hana hefur verið skrifað í erlendum blöðum og við höfum verið í viðtölum í erlendum fjölmiðlum. Hún hefur bara fengið góð meðmæli,“ bætir hann við.

Sýning fyrir alla

Sýningin er sérstaklega hönnuð til að vera aðgengileg fyrir breiðan hóp áhorfenda. „Það er margt fólk sem bókar sig inn á sýninguna þegar það er að skipuleggja Íslandsferð og er kannski fyrstu kynnin af landinu,“ segir Bjarni.

Hún er blanda af uppistandi og·söguleikhúsi með miklu myndefni, og er bæði fyndin og fræðandi. „Þú þarft í rauninni ekkert að vita neitt rosa mikið um land né þjóð, þannig hún er svona mjög aðgengileg,“ útskýrir hann.

Reglulegar uppfærslur og breytingar

Í gegnum árin hefur sýningin þróast og tekið breytingum í takt við tímann. „Ég hef uppfært sýninguna alltaf reglulega þannig að hún sé eins mikið „up to date“ og hægt er,“ segir Bjarni. Hann nefnir sérstaklega að sýningin hafi tekið breytingum eftir bankahrunið og síðar Covid-19 faraldurinn.

Þrátt fyrir erfiðleika sem fylgdu faraldrinum hefur sýningin náð sér á strik aftur. „2023 var alveg rosa gott ár,“ segir hann.

Bjarni Haukur Þórsson.
Bjarni Haukur Þórsson. mbl.is/Arnþór

Gott samstarf við Hörpu

Bjarni leggur áherslu á að samstarfið við Hörpu hafi verið lykilatriði í velgengni sýningarinnar. „Ég hef átt alveg rosalega gott samstarf við Hörpu á öllum þessum árum og það hjálpar mikið að það er mikið af útlendingum sem koma inn í Hörpu,“ segir hann.

Margir ferðamenn kaupa miða á sýninguna á staðnum og salurinn sem sýningin fer fram í, Kaldalónssalurinn, er mjög aðgengilegur. „Gott samstarf við Hörpu gerir það að verkum að sýningin er ennþá í gangi,“ bætir hann við.

Vinsæl hjá Bandaríkjamönnum

Áhorfendur sýningarinnar hafa verið af öllum aldri og frá ýmsum löndum. „Það er yfirleitt alveg svakalega góð stemning á sýningunni,“ segir Bjarni. „Uppistaðan hefur breyst aðeins, þetta er mikið til Bandaríkjamenn sem koma á sýninguna, einfaldlega vegna þess að þeir þekkja þetta form leikhússins vel, þetta er svona „stand up“ formið og titillinn höfðar til þeirra.“

Hann bætir við að í upphafi hafi áhorfendur verið fjölbreyttari, með fleiri Norðurlandabúum og íslendingum, en breytingar í ferðamannabransanum hafi haft áhrif á þetta.

Eftirminnileg augnablik

Á ferlinum hafa ýmis ógleymanleg augnablik átt sér stað. „Allt frá því að maður hefur séð fólk koma á sýningu með blað og penna og vera að skrifa niður og ætlar virkilega að læra af þessu, í það að fólk er í spjalli við mann og segja frá sínu landi,“ segir Bjarni.

Hann nefnir sérstaklega atvik þar sem kona frá Texas fullyrti að hún hefði lesið allar Íslendingasögurnar og vitnaði í þær á sýningunni. „Það sýnir manni bara það að áhuginn á Íslandi og á íslenskri menningu og sögunum okkar, hann er út um allan heim.“

Þrautsegja og halda áfram

Að halda sýningu gangandi í tólf ár krefst mikillar þrautseigju. „Það er fyrst og fremst bara þrautsegja og að hafa trú á verkefninu,“ segir Bjarni. Hann nefnir einnig erfiðleikana sem fylgdu Covid-19 faraldrinum, en þrátt fyrir það tókst honum að endurvekja sýninguna. „Það er bara að gefast ekki upp sko, halda þessu áfram, það er númer eitt.“

Vinsældir sýningarinnar hafa leitt til þess að hún hefur verið aðlöguð fyrir aðrar þjóðir. Sænska útgáfan, „How to Become Swedish in 60 Minutes“, var frumsýnd í Stokkhólmi árið 2016 og norska útgáfan, „How to Become Norwegian in 60 Minutes“, verður sýnd í Osló á næsta ári.

Bjarni vinnur með þarlendum meðframleiðendum að þessum verkefnum og gerir handritin.

Bjarni hefur ekki í hyggju að hætta. „Þessu verður alveg pottþétt haldið áfram svo lengi sem að áhorfendur halda áfram að koma,“ segir hann. Þrátt fyrir að sýningin hafi náð þúsund sýningum, sér Bjarni fram á að halda áfram að gleðja og fræða ferðamenn með sýningunni sinni í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert