Mjög gaman á Rey Cup og allir vinalegir

Merlicy, Eunice og Talandila, fótboltastelpur frá Malaví, skemmta sér vel …
Merlicy, Eunice og Talandila, fótboltastelpur frá Malaví, skemmta sér vel á Rey Cup. mbl.is/Eyþór

Fótboltastelpur frá Malaví voru ánægðar að sjá til sólar í dag á knattspyrnumótinu Rey Cup. Þeim finnst kuldinn mikill, en segja Ísland góðan stað til að vera á.

Blaðamaður tók púlsinn á Merlicy Lickson þjálfara undir sextán ára kvennaliðsins hjá knattspyrnuakademíunni Ascent Soccer, frá Malaví og tveimur leikmönnum liðsins, þeim Eunice Sintchaya og Talandila Chinyamvula, á Rey Cup, í Safamýri í Reykjavík í dag.

Tóku þrjú flug til að komast á Rey Cup

Ellefu stelpur komu til landsins á dögunum til þess að taka þátt á Rey Cup og er þetta í fyrsta skipti sem kvennalið frá Malaví kemur til Evrópu.

Talandila er fimmtán ára, hún byrjaði að æfa fótbolta þegar hún var níu ára. Eunice er fjórtán ára, hún byrjaði að æfa fótbolta þegar hún var átta ára.

Merlicy er átján ára, hún byrjaði að þjálfa liðið í fyrra og æfir sjálf fótbolta með eldri stelpum hjá knatt­spyrnuaka­demí­unni Ascent Soccer.

Þær tóku þrjú flug til að komast til Íslands. Merlicy segir þær hafa flogið frá Malaví til Eþíópíu, þaðan til Noregs og svo loks til Íslands. 

Gott að sjá til sólar í dag

Þeim finnst mjög kalt á Íslandi, enda eru þær vanar talsvert meiri hita í Malaví þar sem þær búa og æfa fótbolta. 

„Ísland er góður staður, það er gott veður í dag og okkur líkar vel að sjá til sólar,“ segir Merlicy.

Skemmtilegt að mæta Arsenal

Hvernig finnst ykkur á Rey Cup?

„Það er mjög gaman á Rey Cup og allir eru mjög vinalegir,“ segir Talandila. Eunice og Merlicy taka undir með henni.

„Mér fannst mjög skemmtilegt að keppa á móti Arsenal í gær,“ segir Eunice og Talandila tekur undir. En í gær kepptu þær á móti undir sextán ára liði Arsenal og gerðu 1-1 jafntefli.

Fly Over Iceland skemmtileg upplifun

Auk þess að keppa hafa þær farið í sund og í Fly Over Iceland.

Merlicy segir að sem flestir þurfi að prófa að fara í Fly Over Iceland, Eunice og Talandila taka undir og segja að það hafi verið mjög skemmtileg upplifun og að það hafi einnig verið gaman í sundi.

„Kirkjurnar hér eru mjög fallegar og umhverfið líka,“ segir Talandila og brosir.

Þær segjast spenntar fyrir næstu leikjum og dagskrá mótsins.

Eftir mótið er svo stefnt á að hópurinn fari í hvalaskoðun, sem þær segjast mjög spenntar fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert