Óljóst hvort ferðamennirnir megi yfirgefa landið

Rannsókn þriggja ferðamanna um meinta líkamsárás miðar vel en þó …
Rannsókn þriggja ferðamanna um meinta líkamsárás miðar vel en þó nokkuð gæti verið áður en ákvörðun liggur fyrir um ákæru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirheyrslum er lokið yfir þremur ferðamönnum sem grunaðir eru um meiri­hátt­ar lík­ams­árás fyrir tæpri viku og voru handteknir í kjölfarið. Rannsókn málsins er í hefðbundnum farvegi hjá lögreglunni en miðar vel. Þá er verið að yfirfara alls kyns gögn og getur rannsóknin tekið nokkrar vikur.

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is, að rannsóknarferlið sé ekki enn komið á það stig að ákvörðun um ákæru liggur fyrir og að nokkrar vikur eða mánuðir geti liðið þar til sú ákvörðun verður tekin.

Óvíst um farbann

Enginn ferðamannanna þriggja er í gæsluvarðhaldi.

Spurður hvort ferðamennirnir þrír geti farið úr landi á meðan rannsókn er enn yfirstandandi segir Unnar það alfarið fara eftir því hvaðan þeir eru.

Séu þeir frá landi þar sem yfirvöld þess geta tekið málið yfir, gæti þeim verið leyft að fara úr landi. Annars gætu þeir átt von á að því að vera settir í farbann.

Magn fíkniefna óljóst

Þá er ekki heldur vitað um tegund né magn fíkniefna sem tveir þessara þriggja manna voru taldir hafa í fórum sér og segir Unnar að það taki um tvær vikur að fá niðurstöður varðandi það frá tæknideildinni. Hann bætir þó við að biðtíminn gæti lengst vegna sumarleyfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert