„Þetta var geggjað gaman“

Þórbergur Rúnarsson og Einar Dagur Brynjarsson, eru komnir til Akureyrar, …
Þórbergur Rúnarsson og Einar Dagur Brynjarsson, eru komnir til Akureyrar, eftir að hafa hjólað frá Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Vinirnir Þórbergur Rúnarsson og Einar Dagur Brynjarsson eru komnir til Akureyrar á undan áætlun, eftir að hafa hjólað alla leið frá Reykjavík. Þeir lögðu af stað á þriðjudagsmorgun og hafa safnað áheitum til styrktar Hringnum.

Hafa safnað 275.000 krónum

Þeir hafa nú safnað 275.000 krónum og eru alsælir með þá upphæð.

„Okkur líður bara mjög vel,“ segja þeir í kór, þegar blaðamaður mbl.is tók púlsinn á þeim í morgun eftir að þeir komu í mark um sjö leytið.

Vinirnir hjóla í mark á Akureyri.
Vinirnir hjóla í mark á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Þeir fengu hugmyndina að hjóla til Ak­ur­eyr­ar í vor og á ferðalagið að vera hluti af loka­verk­efni þeirra í 10. bekk í Rétt­ar­holts­skóla á næsta ári.

Mikil þoka í nótt

„Þetta var geggjað gaman,“ segja þeir, spurðir hvernig ferðin í heild sinni hafi verið.

„Það var mjög mikil þoka og maður var smá blautur, en það var mjög þægilegt að hjóla í nótt af því að það var svo lítil umferð,“ segir Þórbergur. 

Þeir fengu góðan meðbyr inn Langadalinn og hjóluðu síðan í logni og svartaþoku yfir Vatnsskarðið, alla leið ofan í Öxnadal. 

Það var þoka á köflum þegar þeir hjóluðu í nótt.
Það var þoka á köflum þegar þeir hjóluðu í nótt. Ljósmynd/Aðsend

Beint í bakarí

Í gærkvöldi ræddu strákarnir við mbl.is áður en þeir lögðu af stað síðasta spölinn, frá Blönduósi til Akureyrar. Þá sögðust þeir meðal annars ætla að sofa og fara í bakarí, ísbúð og sund, þegar þeir kæmu til Akureyrar.

Fyrsta sem þeir gerðu þegar þeir komu til Akureyrar var að fara í bakarí og næra sig.

„Bakaríið við brúna bauð okkur að koma til sín, það var geggjað að koma í bakaríið og fá að borða, við fengum allt frítt,“ segir Einar.

Skinkuhorn, pizzasnúðar, heitt súkkulaði, kleinur og smákökur urðu fyrir valinu hjá strákunum í bakaríinu.

Þeir fóru beint í bakarí að næra sig.
Þeir fóru beint í bakarí að næra sig. Ljósmynd/Aðsend

Þeir segjast ætla að keyra heim til Reykjavíkur í dag og sofa vel, enda séu þeir þreyttir og þá sérstaklega í fótunum. 

Markmiði náð!
Markmiði náð! Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert