„Þetta verður allt að spila saman“

Vésteinn Hafsteinsson er aðalfararstjóri íslenska hópsins í París.
Vésteinn Hafsteinsson er aðalfararstjóri íslenska hópsins í París. Samsett mynd/Guðmundur Karl/Ian Langsdon

Skemmdarverk sem unnin voru á hraðlestarkerfi Frakka í nótt hafa ekki áhrif á íslensku ólympíufarana.  

Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ og aðalfararstjóri hópsins, segir ólympíufarana fara með rútu til og frá ólympíuþorpinu og þurfi því ekki að notast við lestarkerfið. 

Um er að ræða umfangsmikil skemmdarverk sem gera það að verkum að búið er að aflýsa og fresta fjölda lestarferða. Gæti ástandið varað yfir helgina á meðan unnið er að viðgerðum. 

„Við einbeitum okkur að íþróttafólkinu

Að sögn Vésteins dvelur hluti starfsfólks ÍSÍ á hóteli utan þorpsins og hafa þau verið að nota lestakerfið. Hann segir hópinn þó hafa aðgang að tveimur bílum sem verði notaðir til að ferja starfsfólkið ef ekki verður hægt að notast við aðrar samgöngur.

Vésteinn segir skemmdarverkin þannig fyrst og fremst koma til með að hafa áhrif á áhorfendur. 

„Við einbeitum okkur að íþróttafólkinu, látum ekki atriði sem við getum ekkert gert með hafa áhrif á okkur,“ segir hann. 

Aðallega kvartað undan samgöngum hingað til

Þó skemmdarverk á hraðlestarkerfið hafi ekki bein áhrif á hópinn þá gætu þau gert það ef kerfið liggur lengi niðri. Er það vegna þess að samgöngur á vegum leikanna hafa verið illa skipulagðar að sögn Vésteins. 

„Þetta verður allt að spila saman,“ segir hann og útskýrir að bæði sundfólkið og Guðlaug Edda Hannesdóttir, sem keppir í þríþraut, hafi átt erfitt með að komast á æfingar vegna lélegra samgangna. 

„Ef það hefur verið kvartað yfir einhverju hingað til þá eru það aðallega samgöngur,“ segir Vésteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert