Umboðsmaður barna krefur ráðherra um svör

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður barna hefur óskað eftir svörum frá Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra. Bendir umboðsmaður á að ráðuneytið hafi ekki sinnt lögbundinni skyldu sinni þrátt fyrir áminningu af hálfu embættisins.

Í bréfi umboðsmanns til ráðherra spyr umboðsmaður hvort til staðar sé skýr og heildstæð áætlun um innleiðingu á nýju samræmdu námsmati.

Óskar umboðsmaður einnig eftir upplýsingum um hvenær áætlað sé að nýtt samræmt námsmat verði innleitt að fullu og hvenær skýrsla um framkvæmd skólahalds verði lögð fyrir Alþingi, en ráðherra ber að gera það á þriggja ára fresti.

Í bréfinu er vitnað í umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is, sem greint hafa frá áformum um breytingar á lögum um grunnskóla.

Umfjöllunin hefur hrundið af stað háværri umræðu í samfélaginu um menntamál og námsmat í skólakerfinu.

Ráðuneyti og forstjóra ber ekki saman

Í samráðsgáttinni er því haldið fram af hálfu ráðuneytisins að gert sé ráð fyrir að nýtt námsmat, matsferill, verði tilbúið til notkunar í byrjun árs 2025.

Forstjóri Miðstöðvar mennta og skólaþjónustu hefur þó sagt í samtali við Morgunblaðið að námsmatið verði ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027.

Ráðuneytið hefur ekki svarað mbl.is um hvort það hyggist leiðrétta rangfærsluna, sem stendur enn.

Vill vita hvenær nýtt námsmát verði innleitt að fullu

Óskar umboðsmaður barna eftir upplýsingum um hvort að til staðar sé skýr og heildstæð áætlun um innleiðingu á nýju samræmdu námsmati.

Þá óskar hann jafnframt eftir að fá aðgang að þeirri áætlun.

„Einnig óskar umboðsmaður barna eftir að fá upplýsingar um hvenær áætlað sé að nýtt samræmt námsmat verði innleitt að fullu.“

Trassað að skila skýrslu í fleiri ár

Í bréfinu er jafnframt bent á að ráðherra beri að leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum á þriggja ára fresti, sem byggist m.a. á skýrslum sveitarfélaga um skólahald.

„Ráðuneytið hefur hins vegar ekki lagt fram skýrslu um framkvæmd skólahalds í grunnskólum síðan á 149. löggjafarþingi 2018-2019 og tók sú skýrsla til skólaáranna 2010-2016.“

Ráðherra fékk bréf fyrir tveimur árum

Fram kemur að umboðsmaður barna hafi vakið athygli ráðherra á þessu með bréfi 13. apríl 2022.

„Þar lagði umboðsmaður áherslu á að sérstaklega brýnt væri að skýrsla um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum yrði sem fyrst lögð fram þar sem sóttvarnaráðstafanir hefðu haft víðtæk áhrif á skólastarf.“

Var þá einnig óskað eftir upplýsingum um hvenær ráðherra ætlaði að leggja næst fram skýrslu til Alþingis um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum.

„Í bréfi umboðsmanns barna kom fram að ljóst væri að ráðuneytið hafi ekki sinnt þeirri lögbundnu skyldu sinni að leggja á þriggja ára fresti fram skýrslur um framkvæmd skólastarfs, til að gera löggjafarvaldinu kleift að sinna því hlutverki sínu, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit.“

Lofuðu að leggja fram skýrsluna fyrir tveimur árum

Í svari ráðuneytisins sem barst 3. maí 2022 var því lofað að ráðherra myndi leggja fram skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum sem myndi ná til áranna 2017-2021, fyrir lok ársins 2022.

Skýrslan hefur þó enn ekki verið lögð fyrir Alþingi.

„Umboðsmaður barna óskar hér með eftir upplýsingum um það hvenær skýrsla um framkvæmd skólahalds verði lögð fyrir Alþingi,“ skrifar umboðsmaður.

„Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna, er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.“

Óskar umboðsmaður barna eftir svörum ekki síðar en 19. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert