Vestanátt ber þoku frá hafi yfir borgina

Þokan séð frá Hádegismóum í kvöld.
Þokan séð frá Hádegismóum í kvöld. mbl.is/Guðmundur Hermannsson

„Þetta gerist nú stundum að loknum góðviðrisdegi þegar andar af hafi á sumrin. Þokan er úti á sjó og kemur svo inn um kvöldið“, segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um þétta þoku sem liggur yfir höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.

Segir Teitur í samtali við mbl.is að um vestanátt sé að ræða og þokan hafi fyrst komið í Keflavík klukkan 19 í kvöld og sé því  ekki einungis bundinn við höfuðborgarsvæðið.

„Það er þoka nokkuð víða á landinu. Það er líka þokusúld fyrir norðan,“ segir Teitur og bætir við.

„Þetta verður viðloðandi á höfuðborgarsvæðinu í nótt og svo ætti að létta aðeins  til um tíma í fyrramálið en síðan fer að rigna aftur síðdegis á morgun.“

Teitur segir að algengara sé að svona þoka komi á sumrin en hennar hafi lítið orðið vart núna í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert