Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, biðst velvirðingar á myndinni sem birtist af Höllu Tómasdóttur, verðandi forseta, og eiginmanni hennar, Birni Skúlasyni, á Facebook-síðu Brimborgar í gær.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Agli.
„Í framhaldi af fréttum af kaupum Höllu Tómasdóttur og Björns Skúlasonar á rafbíl frá Brimborg vill undirritaður biðjast velvirðingar fyrir hönd Brimborgar á myndbirtingu frá afhendingu bílsins,“ segir í yfirlýsingunni.
Í gær var greint frá því að Halla Tómasdóttir hafi keypt rafbíl á sérkjörum frá Brimborg. Birt var mynd af Höllu með nýja bílinn á Facebook-síðu Brimborgar, en myndin hefur nú verið tekin út.
Í kjölfarið sendi Halla frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagði að hún hafi ekki óskað sérkjara við kaup á bifreiðinni. Þá hafi myndin verið birt án hennar vitundar.
Í yfirlýsingu Egils segir að Brimborg hafi verið í góðri trú er myndin var birt. Þá sé ekki óalgengt að myndir frá afhendingu nýrra bíla séu birtar á samfélagsmiðlum.
„Brimborg tekur að öllu leiti undir yfirlýsingu sem Halla sendi frá sér í gær. Við töldum okkur birta myndina í góðri trú en þar hefur orðið misskilningur um að heimild til myndatöku gilti sem heimild til birtingar. Því var myndin samstundis tekin úr birtingu þegar ósk um það kom eins og kemur fram í yfirlýsingu Höllu.
Það er ekki óalgengt að myndir frá afhendingu nýrra bíla séu birtar með þessum hætti. Halla hefur svo eftir er tekið sett á dagskrá stöðu kvenna en ekki síður umhverfisins í sínum störfum. Í þessu tilviki sýna verðandi forsetahjón gott fordæmi eins og kom fram í texta með myndbirtingunni og eins og Halla bendir á í sinni yfirlýsingu og kaupa rafbíl, sem er mildari gagnvart umhverfinu og styður við orkuskiptin á Íslandi.“
Enn fremur segir að þau kjör sem Halla hafi fengið séu í samræmi við reglu Brimborgar.
„Kjörin við kaupin eru eins áður hefur komið fram í svörum frá Brimborg algjörlega í samræmi við reglur Brimborgar. Undirritaður tengdi þau hjónin við sölustjóra sem sá í framhaldi alfarið um samskipti og tilboðsgerð. Kjörin taka mið af nokkrum þáttum m.a. fyrri viðskiptum, greiðslufyrirkomulagi og aðstæðum á markaði hverju sinni. Þau eru því í samræmi við það sem aðrir kaupendur fengju sem uppfylla sömu skilyrði.“
Þá mun Brimborg skerpa á reglum um myndbirtingar.
„Brimborg mun í framhaldi skerpa á ferli varðandi myndbirtingar af þessu tagi til að koma í veg fyrir misskilning sem þennan.“