Einstaklingur á Druslugöngunni sást halda á skilti þar sem Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er álösuð um það að standa ekki með þolendum kynferðisbrota þegar gerendur eru íslenskir.
„Diljá Mist: Er meint samstaða þín með þolendum háð uppruna gerenda?“ sést ritað á skiltinu, sem virðist einnig merkt tákni anarkisma.
Diljá Mist hefur lagt fram þingmál um heiðurstengt ofbeldi og kynfæralimlestingar kvenna.
Hún sagði í hlaðvarpinu Ein pæling fyrr í mánuðinum að ákveðnir hópar fengju „frípassa“ hjá íslenskum femínistum er varðar kynbundið ofbeldi.
„Ég ætla að kasta því fram að kjarni þessa vandamáls sé í raun, þegar betur er að gáð, ekkert annað en mannfyrirlitning. Þetta er fólk sem talar af einurð gegn ofbeldi gagnvart konum, og að mannréttindi séu algild og ófrávíkjanleg. Svo eru þau tilbúin að gefa afslátt af því þegar að það kemur að ákveðnum hópum og menningarheimum,“ sagði Diljá Mist í hlaðvarpinu.