Jökulhlaup í Skálm: Þetta er það sem við vitum

Gríðarstórt jökulhlaup flæddi í farveg Skálmar austan Mýrdalsjökuls upp úr hádegi á laugardag og olli miklu tjóni á hringveginum við Skálmarbrú. 

Hætta var á því að að brúin gæfi sig en svo reyndist ekki. Hringvegurinn brast þó á kafla og er enn lokaður milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Veðurstofan telur nú að hlaupið hafi náð hámarki við þjóðveginn.

Samkvæmt allra fyrsta mati er talið að stærðargráðan á hlaupinu hafi verið um 1.000 rúmmetrar á sekúndu við þjóðveginn.

Ljóst er að jökulhlaupið var óvenjulega stórt þó enn líklegt þykir að katlar í Mýrdalsjökli hafi fyllst. Veðurstofan tekur fram í tilkynningu að engin gögn bendi til þess að eldgos hafi hleypt því af stað.

Dregið hefur úr rennslinu í Skálm. Hlaupið hefur líklega náð …
Dregið hefur úr rennslinu í Skálm. Hlaupið hefur líklega náð hámarki við þjóðveginn. Ljósmynd/Sveinbjörn Darri Matthíasson

Flæddi hratt yfir þjóðveginn

Seint á föstudagskvöldi tók Veðurstofan eftir óróamerkjum sem gætu hafa verið upphafsmerki hlaupsins og þess vatnsmagns sem síðan kom niður í farvegi á ánni Skálm og flæddi yfir þjóðveginn.

Órói jókst svo verulega um kl. 11 að laugardagsmorgni og jökulhlaup fór svo að mælast í ánni Skálm austan Mýrdalsjökuls um kl. 13:20.

Jökulvatn flæddi hratt yfir þjóðveginn við Skálmarbrú. Vegagerðin lokaði veginum og verður hann í fyrsta lagi opnaður þegar liðið er á sunnudag.

Einnig var gripið til rýmingar í nágrenni Sólheimajökuls. „Óviss­an er það mik­il að ef það færi að flæða við Sól­heima­jök­ul þá er viðbragðstím­inn það stutt­ur að það er ekki for­svar­an­legt að hafa fólk þar,“ sagði Böðvar Sveins­son nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur við mbl.is.

Upptök við Sandfellsjökul

Síðdegis að laugardegi fóru vísindamenn á vegum Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands í eftirlitsflug yfir svæðið og í ljós koma að upptök hlaupsins væru við jökulsporð Sandfellsjökuls í austurhluta Mýrdalsjökuls.

Ekki var skyggni yfir Mýrdalsjökli til þess að staðfesta úr hvaða kötlum hlaupvatnið kom.

Mynd úr eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðdegis í dag. Á …
Mynd úr eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðdegis í dag. Á myndinni sjást upptök hlaupsins við jökulsporð Sandfellsjökuls í austurhluta Mýrdalsjökuls í fjarska. Ljósmynd/Veðurstofa

Eftir flugið funduðu sérfræðingar Veðurstofu og Almannavarna um stöðu mála og skömmu síðar var greint frá því að hlaupið hefði náð hámarki, miðað við mælingar úr vatnshæðarmæli á Skálmarbrú. 

Þá kom einnig fram að verulega hefði dregið úr óróanum sem fór að mælast um kl. 11 þann morgun og því væri ekki við öðru að búast en að smám saman færi að draga úr rennslinu í Skálm.

Hljóp hvergi annars staðar

Veðurstofan tekur þó fram að nokkrir dagar geta liðið þangað til að rennslið í Skálm kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma.

Á sama tíma og jökulhlaupið hófst sáust vatnavextir í Múlakvísl, en seinna reyndust engin merki sjást um að hlaupvatn hafi borist í ána eða aðrar ár undan Mýrdalsjökli.

Minney Sigurðardóttir náttúruvársérfræðingur lýsti breytingunum í Múlakvísl sem reglulegum „dægrasveiflum“ í samtali við mbl.is í gær.

Hlaupið í Skálm telst sambærilegt hlaupunum í Múlakvísl 2011 og 1955.

Hvað svo?

Það er enn ekki óhætt að segja að atburðarrásinni sé lokið.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgjast náið með óróa og jarðskjálftavirkni undir jöklinum, en tekið getur allt að sólarhring fyrir þá virkni að komast aftur í það sem kallast „eðlileg bakgrunnsvirkni“, að sögn Veðurstofu.

Um 700 metra kafli þjóðvegarins við Skálmarbrú er skemmdur eftir jökulhlaupið. Brúin sjálf er reyndar óskemmd, en leiðarar út frá henni og stoðir á henni urðu fyrir miklu tjóni.

„Það kostar helling,“ sagði Ágúst Freyr Bjart­mars­son, yfirverkstjóri Vega­gerðarinnar á Vík, í samtali við mbl.is. „Svo eru klæðning­in og veg­ur­inn far­in – skemmd á um 700 metra kafla.“

En nú fyrst flóðið virðist draga úr sér getur Vegagerðin mögulega gengið í viðgerðir á veginum um sunnudagsmorgun og jafnvel opnað hann að hluta til þegar liðið hefur á daginn.

Á vef Vegagerðar segir: „Þegar vatn fer að minka verður vegurinn skoðaður og þá mun koma í ljós hversu langan tíma það tekur að lagfæra hann. Ekki er talið líklegat að hægt verið að opna veginn í fyrramálið en vonast er að hægt verði að koma með meiri upplýsingar um kl. 12:00“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert