Óvissustigi lýst yfir: Toppnum ekki náð

Jökulhlaup er hafið í Skálm austan Mýrdalsjökuls. Jökulvatn flæðir yfir …
Jökulhlaup er hafið í Skálm austan Mýrdalsjökuls. Jökulvatn flæðir yfir þjóðveginn á svæðinu. Ljós­mynd/​Jó­hann­es Giss­ur­ar­son

Jök­ul­hlaupið í Skálm aust­an Mýr­dals­jök­uls er „feiknastórt“ og telja sérfræðingar að búast megi við stærri atburðum seinna í dag. Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi. 

Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Flóðið sem flæðir yfir veginn við Skálm er 500 til 1.000 metrar á breidd en gert er ráð fyrir enn meira flæði í hlaupið seinna í dag. 

„Þetta er feiknastórt hlaup. Stærra en hlaupið sem varð 2011,“ segir Einar.

Jökulhlaup mögulegt í Múlakvísl

Hann segir að almannavarnir hafi lýst yfir óvissustigi og að gert sé ráð fyrir stærri atburðum seinna í dag. 

„Við gerum ráð fyrir því að toppnum sé ekki enn þá náð og það geti jafnvel átt sér stað fleiri jökulhlaup í aðrar ár á svæðinu. Þar á meðal Múlakvísl,“ segir hann. 

Hvað veldur þessu?

„Það byrjar þessi órói í gær undir jöklinum. Þetta eru jarðhitakatlar sem eru að tæma sig vegna hlýinda og leysinga. Þá gerist það stundum að katlarnir byrja að tæma sig og núna teljum við að það sé mjög stór svoleiðis atburður í gangi,“ svarar Einar.

„Við það verður hvellsuða í öllu jarðhitakerfinu þarna sem við greinum vel á óróamælum. Við sjáum á þessum óróamælum að það er enn þá það mikill órói að við teljum að atburðinum sé ekki lokið og þetta muni halda áfram út daginn.“

Veistu meira? Áttu myndir af jökulhlaupinu? Þú getur sent okkur línu á frettir@mbl.is.

Gasmengun gæti fylgt

Rafleiðni hefur mælst óvenju há í Skálm og vatn flæðir yfir þjóðveginn, samkvæmt yfirlýsingu frá Ríkislögreglustjóra.

„Hætta getur verið nálægt jökulsporðunum þar sem jökulvatn geisar út og getur þessu fylgt gasmengun sem geti skapað hættu fyrir fólk í lægðum nálægt jökulsporðunum,“ segir í tilkynningunni.

Frétt hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert