Um 700 metra kafli þjóðvegarins er skemmdur eftir að feiknastórt jökulhlaup í Skálm flæddi yfir vegin fyrr í dag. Skálmarbrúin er þó óskemmd og vegkaflinn opnar mögulega á morgun.
Vatnshæðin í Skálm virðist tekin að lækka en þar hefur óvenju stórt jökulhlaup hófst þar í dag, og er það vísbending um að hlaupið hafi mögulega náð hámarki sínu í ánni.
„Eins og er, er þetta [hlaupið] töluvert mikið gengið niður. Það er mikið vatn og rennur enn við endann á brunni en það hefur mikið lækkað,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson hjá Vegagerðinni í samtali við mbl.is en hann er yfirverkstjóri á Vík.
„Það lítur allt betur út.“
Brúin sjálf er óskemmd, en leiðarar út frá henni og stoðir á henni hafa þó orðið fyrir miklu tjóni. „Það kostar helling,“ segir Ágúst.
„Svo eru klæðningin og vegurinn farin – skemmd á um 700 metra kafla,“ segir hann enn fremur. Fylla þurfi í skörð í veginum þegar tækifæri gefst.
Ef þróunin heldur fram sem horfir býst Ágúst við því að vinna geti hafist við viðgerðir á veginum á morgun og jafnvel opnað hann að hluta til þann sama dag.
„Þegar þetta hættir, þegar við getum byrjað að vinna, þá lögum við skarðið. Þegar það er komið er hægt að laga eitthvað til, hleypa í aðra áttina til skiptist,“ segir hann.
„Það verður eitthvað liðið á morgundaginn þegar við munum geta opnað.“
Ljóst er að um óvenju stórt hlaup er að ræða en óljóst er hvað hefur hleypt því af stað. Ekki er útilokað að lítið eldgos hafi valdið því.
Aukning í rafleiðni fór að mælast í Skálm í nótt og í morgun mátti sjá aukinn óróa undir jöklinum, samkvæmt Veðurstofu.
„Þetta er stærri atburður en hefur verið, eins og 2011,“ sagði náttúruvársérfræðingur við mbl.is í dag. Veðurstofan telur miðað við ljósmyndir að hlaupið hafi náð hámarksrennsli við jökulsporðinn.