Upprifjun: Svona yrðu fyrirboðar Kötlugoss

Á fyrsta degi Kötlugoss af meðalstærð gæti gosmökkur náð meira …
Á fyrsta degi Kötlugoss af meðalstærð gæti gosmökkur náð meira en 14 kílómetra hæð. mbl.is/RAX

Þensla, jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti, sem kæmi fram í stækkun sigkatla, eru líklegir fyrirboðar Kötlugoss. Líklegt þykir einnig að ákafrar skjálftahrinu yrði vart, áður en gos brytist út úr Mýrdalsjökli.

Þetta kemur fram í íslensku eldfjallavefsjánni, sem Veðurstofan og Jarðvísindastofnun HÍ halda úti.

Síðan mælingar hófust hefur ekki gosið í Kötlu, svo staðfest sé, og er því byggt á þeim gögnum sem liggja fyrir um eldri gos í eldstöðinni.

Þegar litið er til þeirra er vitað til þess að skjálftar hafi fundist sunnan Mýrdalsjökuls, um 2-10 klukkustundum áður en sést hefur til gosmakkar upp úr jöklinum, eða jökulhlaupa orðið vart á Mýrdalssandi.

Eins og greint hefur verið frá í dag er „feiknastórt“ jökulhlaup hafið í Skálm, austan Mýrdalsjökuls. Reikna sérfræðingar með að toppnum sé enn ekki náð og að búast megi við jökulhlaupum í fleiri ám, þar á meðal Múlakvísl. Óróa varð fyrst vart undir jöklinum í gær.

Getur náð meira en 14 kílómetra hæð

Tekið er fram í vefsjánni að viðvörunartími hugsanlegs eldgoss með nútíma mælitækni sé óþekktur, en samkvæmt heimildum nemi hann 1-6 klukkustundum áður en eldgos brýst upp úr ísnum og myndar gosmökk.

Á fyrsta degi Kötlugoss af meðalstærð getur gosmökkur náð meira en 14 kílómetra hæð. Ákaft gjóskufall myndi einnig hefjast innan fárra klukkustunda og almyrkt yrði á nærliggjandi svæðum, eða innan um 40 kílómetra.

Gera mætti ráð fyrir víðtæku gjóskufalli fyrstu dagana sem gæti náð til meginlands Evrópu. Þykkt nýfallinnar gjósku í 25-30 km fjarlægð frá eldstöðinni gæti þá náð allt að 30 sentimetrum.

Stór hluti þjóðvegar 1 færi í sundur

Stórt jökulhlaup er talið myndu koma undan jökli um sama leyti og gosmakkar yrði vart. Jökulhlaupin eru sögð geta borið með sér feiknastór ísstykki og gríðarmikið setmagn, að mestu gosefni.

„Stór hluti þjóðvegar 1 grefst í sundur og verður ófær meðan á eldgosi stendur og um tíma eftir goslok. Framburður sem jökulhlaup skilja eftir gæti hækkað hluta svæðis sem þau fara yfir um nokkra metra,“ segir þar.

Ströndin þar sem hlaup renna í sjó gæti færst suður út í sjó um nokkra kílómetra, þegar óseyri myndast.

Mestar líkur, eða 85-89%, þykja á því að jökulhlaup samhliða eldgosi færi til austurs niður á Mýrdalssand. Líkur á að hlaupið fari til suðurs eða vestur eru taldar 4-8% í báðum tilfellum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert