Vantshæð í Skálm virðist lækka á ný

Jökulhlaup er hafið í Skálm austan Mýrdalsjökuls. Jökulvatn flæðir yfir …
Jökulhlaup er hafið í Skálm austan Mýrdalsjökuls. Jökulvatn flæðir yfir þjóðveginn á svæðinu. Ljósmynd/Sveinbjörn Darri Matthíasson

Vatnshæðin í Skálm virðist tekin að lækka en þar hefur óvenju stórt jökulhlaup hrint miklu flóði yfir hringveginn í dag. Er þetta vísbending um að hlaupið hafi mögulega náð hámarki sínu á því svæði.

„En það er ómögulegt að segja hvort þetta sé alveg búið,“ segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is. 

Jökulhlaup er hafið í Skálm austan Mýrdalsjökuls. Jökulvatn flæðir yfir þjóðveginn á svæðinu.

Viðbragðsaðilar fljúga nú yfir svæðið til að kanna vatnavexti í Skálmá. Í kjölfarið munu sérfræðingar funda klukkan átta en Minney segir að frekari upplýsinga sé að vænta að fundi loknum.

Skemmdir eru á öðrum endanum á Skálmarbrú vegna jökulhlaupsins. Gripið var til rýmingar í nágrenni Sólheimajökuls.

Enn óljóst hvað olli hlaupinu

Óljóst er hvað hefur hleypt jökulhlaupinu af stað, ekki er útilokað að lítið eldgos hafi valdið hlaupinu. Aukning í rafleiðni fór að mælast í Skálm í nótt og í morgun mátti sjá aukinn óróa undir jöklinum, samkvæmt Veðurstofu

„Það eru ýmsar getgátur. En það þarf að skoða fleiri gögn og rýna betur í þetta,“ segir Minney. „Hvort þetta sé bara Katla að tæma sig eða hvort eitthvað meira sé í gangi.“

Ljóst er að um óvenju stórt hlaup er að ræða.

„Þetta er stærri atburður en hefur verið, eins og 2011,“ tekur náttúruvársérfræðingurinn fram. Veðurstofan telur miðað við ljósmyndir að hlaupið hafi náð hámarksrennsli við jökulsporðinn.

Litlar hækkanir í Múlakvísl

Ekki er hægt að útiloka að hlaupvatn komi undan jöklinum á fleiri stöðum og hlaupvatn berist niður í Múlakvísl.

Minney segir að vatnshæðarhækkun sjáist í Múlakvísl en að engin áberandi lækkun sjáist heldur í ánni.

Aftur á móti séu hæðarbreytingar algengar í Múlakvísl yfir daginn. „Það hefur verið smá hækkun frá hádegi en það virðist vera meira eins og dægursveifla í ánni. Það hækkar alltaf eftir hádegi og lækkar eftir miðnætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert