Segir meira um viðkomandi en nokkuð annað

Diljá segir það sorglegt að athyglin sé dregin af göngunni …
Diljá segir það sorglegt að athyglin sé dregin af göngunni til að koma höggi á hana. Samsett mynd/Aðsend/Hákon Pálsson

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fagnar því að vakið sé athygli á málstað Druslugöngunnar. Þingmaðurinn segir það aftur á móti sorglegt að athygli sé dregin af göngunni til að reyna koma höggi á sig.

Í gær var Druslugangan gengin í tólfta sinn og var einn einstaklingur sem hélt uppi skilti sem beindist að Diljá. Á skiltinu stóð ritað: „Diljá Mist: Er meint samstaða þín með þolendum háð uppruna gerenda?“

Diljá vakti athygli fyrr í mánuðinum þegar hún sagði í hlaðvarpi að ákveðnir hópar fengju „frípassa“ hjá íslenskum femínistum er varðar kynbundið ofbeldi.

Innt eftir viðbrögðum við þessu skilti svarar Diljá:

„Varðandi þessa furðuuppákomu finnst mér sorglegt að þegar við sjáum bakslag í ýmsum réttindamálum í kringum okkur sé verið að pilla í áttina að mér við svona tilefni. Það segir náttúrulega meira um viðkomandi heldur en nokkuð annað.“ 

Hér má sjá skiltið.
Hér má sjá skiltið. Ljósmynd/Aðsend

Persónuleg heift frekar en eitthvað annað

Diljá segir þessa gagnrýni ekki byggja á málefnalegum forsendum. Heldur snúist hún um persónulega heift í hennar garð. 

„Það er alltaf verið að reyna finna eitthvað að því sem maður segir. Ef það er ekki hvað maður segir er það hvernig maður segir það. Ég tel mig hafa mjög sterka réttlætiskennd og á þeim grunni held ég bara ótrauð áfram minni baráttu,“ segir Diljá. 

Diljá lagði fram fyrirspurn á Alþingi til dómsmálaráðherra í júní þar sem óskað er eftir upplýsingum um heiðurstengt ofbeldi og umfangi þess hér á landi. 

Ástæða fyrirspurnar er stórfellt brot í nánu sambandi sem átta Palestínumenn voru ákærðir fyrir í lok maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka