„Ég ákvað að hjóla svo að hann gæti hjólað“

Sóley safnaði fyrir þríhjóli fyrir Bergstein svo að hann geti …
Sóley safnaði fyrir þríhjóli fyrir Bergstein svo að hann geti hjólað. Samsett mynd/mbl.is/Þorgeir

Sóley Kjerúlf Svansdóttir hjólaði í gær 18 Eyjafjarðarhringi á sólarhring og safnaði fyrir sérsmíðuðu þríhjóli – og gott rúmlega það – fyrir vin sinn Bergstein, sex ára strák með einhverfu.

Sóley Kjerúlf Svansdóttir hjólagarpur.
Sóley Kjerúlf Svansdóttir hjólagarpur. mbl.is/Þorgeir

Gengur vel að hjóla á þríhjóli

Hún segir Bergstein hafa rosalega gaman af allri hreyfingu, en hann geti ekki hjólað á venjulegu hjóli með hjálparadekkjum.

„Hann hefur verið að prófa þríhjól og það hefur gengið rosalega vel, þannig að mig langaði að safna fyrir hjóli fyrir hann,“ segir Sóley í samtali við mbl.is.

Hún segir Bergstein glaðan þegar hann hjólar og að hana langaði að hann geti stundað sína hreyfingu.

Safnaði fyrir hjólinu og vel rúmlega það

„Það er dýrt að kaupa svona þríhjól, þannig að ég hugsaði hvað get ég gert til að hjálpa foreldrunum,“ segir Sóley.

„Ég ákvað að hjóla svo að hann gæti hjólað.“

Hún segir hjólið kosta um 500 þúsund krónur og svo séu einnig aukahlutir sem þurfi að panta. 

„Ég náði að safna fyrir hjólinu og gott rúmlega það, hann á innistæðu fyrir uppfærslu þegar kemur að því,“ segir Sóley.

Hjólaði 482 kílómetra

Sóley býr í Eyjafjarðarsveit og hjólar hringinn næstum því daglega. 

„Samtals fór ég átján hringi eða 482 kílómetra, ég vissi að ég var um það bil klukkutíma að hjóla hvern hring, en ég vildi ekki setja tímapressu á mig,“ segir hún.

Hún byrjaði klukkan 17 á föstudaginn og kláraði sólarhring síðar, klukkan 17 á laugardaginn.

„Það voru 23 sem að komu og hjóluðu með mér yfir sólarhringinn,“ segir Sóley glöð í bragði.

Að lokum segir hún söfnunina hafa farið langt umfram allar hennar vonir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert